Viðskipti innlent

Segja allar upplýsingar um Sjóð 9 hafa verið aðgengilegar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Glitnir. Mynd/ Valgarður.
Glitnir. Mynd/ Valgarður.
Stjórnendur Íslandssjóða, sem áður kölluðu sig Glitnissjóði, fullyrða að fjárfestingar og eignasafn Sjóðs 9 hafi verið í samræmi við fjárfestingarheimildir eins og lög og reglur verðbréfa- og fjárfestingarsjóða geri ráð fyrir. Þetta kemur fram í orðsendingu sem stjórnendur sjóðsins hafa sent Vísi vegna fréttar af fyrirhugaðri málshöfðun gegn Íslandssjóðum vegna taps sem sjóðsfélagar í Sjóði 9 urðu fyrir þegar sjóðunum var slitið.

Einar Hugi Bjarnason lögmaður segir að málsóknin sé meðal annars reist á því að fjárfestingar og eignasafn sjóðanna hafi ekki verið í samræmi við þá stefnu bankans að 20% af heildareignum sjóðsins ætti að vera í formi ríkisskuldabréfa. Stjórnendur Íslandssjóða vísa hins vegar til fréttatilkynningar frá Fjármálaeftirlitinu þann 2. október í fyrra þar sem segir að fjárfestingar og eignasafn Sjóðs 9 hafi verið í samræmi við reglur sjóðsins og ákvæði um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.

Þá hafna stjórnendur Íslandssjóða því að markaðsefni hafi verið verulega ámælisvert. Allar upplýsingar hafi verið aðgengilegar, hvort sem um ræði útboðslýsinguna eða útdráttur útboðslýsingar þar sem áhættuþættir hafi verið tilteknir. Upplýsingablað sjóðsins hafi verið uppfært mánaðarlega, auk þess sem eignir hafi verið tilgreindar í 6 mánaða og 12 mánaða uppgjöri sjóðsins sem ávallt hafi verið birt í Kauphöll. Á þann hátt hafi rekstrarfélag sjóðsins verið í fararbroddi í upplýsingagjöf meðal rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Jafnframt taka stjórnendur Íslandssjóða það fram að uppgjör, slit og útgreiðsla sjóðsins hafi verið undir eftirliti endurskoðanda.




Tengdar fréttir

Stefna Glitnissjóðum vegna Sjóðs 9

Hópur hlutdeildarskírteinishafa í peningamarkaðssjóðnum Sjóður 9 sem starfræktur var á vegum Glitnis hyggst stefna sjóðnum. „Útgreiðsluhlutfallið úr Sjóði 9 var 85,12% miðað við síðasta skráða gengi sjóðsins þann 6. október í fyrra,“ segir Einar Hugi Bjarnason, lögmaður hjá Ergó lögmönnum, sem undirbýr málsóknina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×