Viðskipti innlent

Landsbankinn tapaði 19 milljörðum frá þjóðnýtingu til áramóta

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Nýi Landsbankinn tapaði nítján milljörðum króna frá því bankinn var tekinn yfir af ríkinu eftir hrun á síðasta ári til áramóta. Á þessum rúmu tveimur mánuðum hagnaðist Nýja Kaupþing hins vegar um fimm milljarða. Þetta kemur fram í nýrri vinnuskýrslu starfshóps Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu efnahagsmála á Íslandi sem birt var í síðustu viku.

Í skýrslunni má sjá tölur úr bókhaldi nýju bankanna þriggja, Landsbankans, Kaupþings og Íslandsbanka. Tölurnar eru frá því eftir hrun bankanna í október og fram að áramótunum þar á eftir. Eða frá tveggja til þriggja mánaða tímabili.

Þar sést að Nýi Landsbankinn tapaði nítján milljörðum króna á þessu tímabili. Nýja Kaupþing skilaði hins vegar fimm milljarða króna hagnaði en Íslandsbanki tapaði tveimur milljörðum króna.

Ríkið lagði hundrað og fjörtíu milljarða inn í Nýja Landsbankann. Nítján milljarðar fóru í að dekka tap bankans en það sem eftir stendur, hundrað og tuttugu og einn milljarður, í nýtt eigið fé bankans.

Benda má á að tölur Landsbankans eru ekki endanlegar þar sem ekki er búið að ljúka endurfjármögnun bankans.

Peningamarkaðssjóðir Landsbankans rýrnuðu mest allra peningamarkaðssjóða við bankahrunið.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, sagði í samtali við fréttastofu að kaup bankans á bréfum úr peningamarkaðssjóðum skýrðu tapið. Ef ekki hefði komið til þeirra hefði bankinn væntanlega verið rekinn með hagnaði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×