Handbolti

Lemgo markvarðalausir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin Galia, markvörður Lemgo.
Martin Galia, markvörður Lemgo. Nordic Photos / Getty Images

Þýska úrvalsdeildarfélagið Lemgo er í mikilli klípu þar sem liðið er ekki með neinn leikfæran markvörð í sínum röðum þessa stundina.

Lemgo mætir Düsseldorf í þýska handboltanum um helgina og sem stendur er með öllu óvíst hver muni standa í marki Lemgo í leiknum.

Martin Galia má ekki æfa með liðinu þar sem hann er í leikbanni til 1. október eftir að hann féll á lyfjaprófi fyrr á árinu.

Aðalmarkvörður liðsins, Carsten Lichtlein, er meiddur og bíður nú þess að sjá hvort að hann fái grænt ljós frá læknum liðsins fyrir helgina.

Lichtlein komst ekki með félaginu til Berlínar um helgina þar sem Lemgo mætti Füchse Berlin. Þá stóð Svíinn Jesper Larsson í markinu en hann var fenginn tímabundið að láni frá IFK Kristianstad í heimalandi sínu. En nú er lánssamningurinn útrunninn og Larsson aftur farinn til Svíþjóðar.

Með Lemgo leika Íslendingarnir Logi Geirsson og Vignir Svavarsson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×