Viðskipti innlent

Hlutafé Nova aukið um þrjá milljarða

Liv bergþórsdóttir segir stefna í að viðskiptavinir Nova verði sextíu þúsund í lok ársins.
Liv bergþórsdóttir segir stefna í að viðskiptavinir Nova verði sextíu þúsund í lok ársins.
Novator, félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, helsta eiganda fjarskiptafyrirtækisins Nova, lagði Nova til tæpa 2,9 milljarða króna í aukið hlutafé á síðasta ári.

Í fyrirvara endurskoðenda við ársreikning Nova vegna afkomu síðasta árs segir að vegna óvissu í íslensku efnhahagslífi eftir hrunið í fyrra og þeirra breytinga sem hafi orðið á íslensku viðskiptalífi í kjölfarið hafi óvissa um framtíðarvöxt Nova aukist. Því hafi hlutafé fyrirtækisins verið bætt verulega. Þá segir að stjórnendur félagsins hafi nægt fjármagn til að fjármagna áætlaðan taprekstur fram á fjórða ársfjórðung á þessu ári, gangi áætlanir eftir.

Liv Bergþórsdóttir, framkvæmda­­stjóri Nova, segir efnahagshrunið ekki hafa sett það skarð í reksturinn líkt og óttast hafi verið. Þvert á móti stefni í að viðskiptavinir verði sextíu þúsund í lok þessa árs en það er tvöföldun á milli ára. Þá er gert ráð fyrir að tekjur nemi 2,5 milljörðum króna fyrir árið, samanborið við 1,3 milljarða í fyrra. Nova tapaði 1,3 milljörðum í fyrra, á fyrsta rekstrarárinu.

„Við gerðum ráð fyrir því að síðasta ár yrði á þessum nótum. Rekstraráætlanir ársins hafa gengið eftir þrátt fyrir hrunið," segir Liv og þakkar það meðal annars aukinni verðvitund neytenda að viðskiptavinum hafi fjölgað þetta mikið á árinu.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×