Viðskipti innlent

Endurskoðun lyfjakostnaðar skilar 1,8 milljarða lækkun

Lyfjagreiðslunefnd áætlar að endurskoðun á lyfseðilsskyldum lyfjum geti skilað um 1,8 milljarða kr. lækkun á þeim fyrir þjóðarbúið í ár og á næsta ári.

 

Gera má ráð fyrir að kostnaðarlækkun apótekslyfja vegna endurskoðunar geti numið 355 milljónir kr. á þessu ári og 410 milljónir kr. á árinu 2010. Ætla má að sparnaður Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) geti numið 266 milljónum kr. og sparnaður sjúklinga geti numið 90 milljónum kr. fyrir árið 2009. Fyrir 2010 er sparnaður SÍ líklega 307 milljónir kr. og sjúklinga 103 milljónir kr. Þessar tölur eru á smásöluverði með vsk.

 

Lyfjagreiðslunefnd hefur lokið við heildarverðendurskoðun á lyfseðilskyldum lyfjum sem byggir á meðalverði í fjórum viðmiðunarlöndunum þ.e. Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð. Í tilkynningu frá nefndinni segir að verðbreytingar í kjölfar verðendurskoðunar tóku gildi 1. júní, 1. júlí og 1. september s.l..

 

Varðandi sjúkrahúslyfin er erfiðar að spá fyrir um raunverulegan sparnað vegna mögulegra útboða. Hins vegar er ljóst að hann er verulegur eða allt að 143 milljónir kr. á árinu 2009 og líklega svipaður á árinu 2010. Þessar tölur eru reiknaðar á heildsöluverði með vsk.

 

Vegna aðstæðna í samfélaginu er mikilvægt að leitað sé allra leiða til að ná fram hagræðingu og sparnaði öllum til heilla. Lyfjagreiðslunefnd vill þakka gott samstarf við lyfjafyrirtækin í landinu til að ná fram þessum sparnaði bæði fyrir ríki og sjúklinga.

 

Lyfjagreiðslunefnd hefur ákveðið að næsta heildarverðendurskoðun hjá nefndinni fari fram í upphafi árs 2011. Til grundvallar þeirri heildarverðendurskoðun liggja þá sölutölur fyrir árið 2010 og á verði í desember 2010.

 

Áður en til heildarverðendurskoðunar kemur geta hagsmunaaðilar komið að athugasemdum um fyrirhugaða framkvæmd hennar telji þeir það nauðsynlegt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×