Viðskipti innlent

Frumstæðir ársreikningar leynifélaga

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Eigendur um fjörutíu félaga sem íslenskir bankar stofnuðu í skattaparadísum, með millilendingu í Lúxemborg, hafa ekki gert skattayfirvöldum grein fyrir eignum sínum með eðlilegum hætti.

Ríkisskattstjóri hefur undanfarið unnið að því að greina eignaraðild um 400 aflandsfélaga. Íslensku bankarnir stofnuðu um 250 félaganna, hin voru stofnuð af íslensku bönkunum í Lúxemborg og lögmönnum.

Ríkisskattstjóri fór þess á leit við bankana í Lúxemborg að fá upplýsingar um hverjir séu raunverulegir eigendur félaganna. Þeir neituðu að láta slíkar upplýsingar í té. Ríkisskattstjóri fékk því fulltrúa sinn til að fara í gegnum fyrirtækjaskránna í Lúxemborg til að afla gagnanna.

Fréttastofa gerði slíkt hið sama og tók afrit af nokkrum ársreikningum í fyrirtækjaskránni í Lúxemborg. Félögin tengjast öll íslenskum aðilum, einstaklingum sem fyrirtækjum.

Ársreikningarnir eru frumstæðir svo ekki sé meira sagt þar sem litlar sem engar upplýsingar er að finna í þeim. Til að mynda eru lánsfjárhæðir tilgreindar en ekki lánskjör né hver er lánveitandi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu tókst ríkisskattstjóra þó að greina eignaraðild að um 40 félaga af þeim 150 sem stofnuð hafa verið í Lúxemborg. Við fyrstu athugun hefur komið í ljós að eigendur félaganna hafa ekki gert grein fyrir erlendum eignum sínum með eðlilegum hætti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×