Viðskipti innlent

Bankastjórar á neyðarfundi heima hjá Davíð Oddssyni

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Sunnudagskvöldið 26. mars árið 2006 var haldinn neyðarfundur á heimili Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra með bankastjórum stóru bankanna þriggja að beiðni þeirra sjálfra, vegna ískyggilegrar stöðu íslensku bankanna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri bók Styrmis Gunnarssonar, Umsátrið - Fall Íslands og endurreisn.

Fundinn heima hjá Davíð sátu seðlabankastjórarnir þrír, Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis og Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans. Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, var ekki sjálfur á staðnum, en var í símasambandi.

Í bók Styrmis segir að á fundinum hafi komið fram að bankarnir hafi fjármagnað sig á þessum tíma með skammtímalánum í verulegum mæli, jafnvel til þriggja mánaða í senn. Bankastjórarnir óttuðust, að daginn eftir, mánudaginn 27. mars, yrði slíkum lánum ýmist sagt upp eða þau ekki endurnýjuð og bankarnir myndu samstundis hrynja.

Niðurstaða fundarins varð sú, að gera ekkert fyrir mánudagsmorgun en taka á vandanum ef hann kæmi upp. Þann dag gerðist ekkert. Styrmir segir að þessi atburður hafi hins vegar orðið til þess að bankastjórunum varð mjög brugðið og að ákveðin straumhvörf hafi orðið í afstöðu þeirra til þeirrar gagnrýni sem á þeim hafði dunið frá erlendum greiningardeildum. Þeir hafi hafist handa við að lengja í lánum og endurskipuleggja fjármögnun bankanna, en fundurinn átti sér stað tveimur og hálfu ári fyrir bankahrunið.

Fréttastofa ræddi við einn fundarmanna á téðum fundi og fékk staðfest að atvikalýsing Styrmis í bókinni væri rétt.

Þá greinir vefsíðan eyjan.is frá því, og vísar í bók Styrmis, að Jean Claude Trichet hafi hringt ævareiður í Davíð Oddsson í apríl 2008 og hótað að grípa til aðgerða sem myndu leiða til gjaldþrots íslensku bankanna. Trichet hafi haldið því fram, að íslensku bankarnir stunduðu óeðlileg gerviviðskipti við Seðlabanka Evrópu í gegnum Seðlabanka Lúxemborgar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×