Viðskipti innlent

DeCode glímir við alvarlegan fjárskort

Kári Stefánsson. DeCode átti 3,7 milljónir dala um áramótin en seldi skuldabréf fyrir ellefu til viðbótar í janúar. Unnið er að fjármögnun fyrirtækisins.
Kári Stefánsson. DeCode átti 3,7 milljónir dala um áramótin en seldi skuldabréf fyrir ellefu til viðbótar í janúar. Unnið er að fjármögnun fyrirtækisins.

Laust fé deCode, móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar, dugar í mesta lagi næstu þrjá mánuði. Þetta kemur fram í uppgjöri fyrirtækisins sem birt var í fyrrakvöld. Óvíst er hvað tekur við en unnið er að fjármögnun félagsins.

Fyrirtækið tapaði 80,9 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði 9,7 milljarða íslenskra króna í fyrra. Þetta er 14,6 milljónum dala betri afkoma en í hittiðfyrra. Tap á fjórða ársfjórðungi nam átján milljónum dala samanborið við 32,4 milljóna dala tap ári fyrr.

Laust fé og innistæður fyrirtækisins námu 3,7 milljónum dala, tæpum hálfum milljarði króna, um áramótin. Ári fyrr átti það 64,2 milljónir dala.

Fyrirtækið seldi Landsbankanum safn skuldabréfa fyrir ellefu milljónir dala í janúar og hefur nýtt andvirðið til rekstrar. Ljóst er að fjármunir hafa brunnið hratt upp og að fyrirtækið hafi aðeins fjármagn fram á yfirstandandi fjórðung.

Haft er eftir Kára í uppgjörinu að stjórn fyrirtækisins hafi unnið að uppstokkun, svo sem eignasölu og viðræðum við lánardrottna til að tryggja fjármögnun félagsins. Ekki náðist í Kára þegar eftir því var leitað í gær.- jab










Fleiri fréttir

Sjá meira


×