Viðskipti innlent

Fimm milljarða króna tap hjá Icelandair Group

Icelandair Group skilaði fimm milljarða króna tapi á fyrstu sex mánuðum ársins. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri félagsins segir rekstrarniðurstöðuna ekki vænlega þegar til lengri tíma er litið. Það sé hins vegar mjög ánægjulegt að félagið sé að gera betur en áætlanir fyrir árshelminginn gerðu ráð fyrir.

„Afkoman sýnir vel þær krefjandi aðstæður sem Icelandair Group býr við. Hún er þó betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og horfur fyrir sumarið og haustið gefa tilefni til hæfilegrar bjartsýni. Verulegur taprekstur er á flugrekstri í heiminum um þessar mundir og markaðsaðstæður á Íslandi hafa gjörbreyst til hins verra," segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.

Hann segir óheppilega fjármagnsskipan og hátt vaxtastig á Íslandi gera félaginu jafnframt erfitt fyrir og býr félagið við hærri fjármagnskostnað en erlendir samkeppnisaðilar þess.

„Icelandair Group er að öllu jöfnu rekið með tapi á fyrri hluta ársins. Engu að síður er rúmlega milljarðs tap á öðrum ársfjórðungi og um fimm milljarða tap á fyrstu sex mánuðum ársins ekki ásættanleg rekstrarniðurstaða þegar til lengri tíma er litið. Það er hins vegar mjög ánægjulegt að við erum að gera betur en áætlanir okkar fyrir árshelminginn gerðu ráð fyrir og það er nokkur rekstrarbati hjá stærsta félaginu í samstæðunni, Icelandair ehf., milli ára," segir Björgólfur.

Afkoma fyrir skatta öðrum ársfjórðungi var rúmlega tveimur milljörðum verri en á sama tímabili í fyrra. Þar munar miklu um fjármagnskostnað sem er um rúmlega milljarði hærri.

Rekstur SmartLynx í Lettlandi gekk mun verr á öðrum ársfjórðungi 2009 en 2008 auk þess sem olíuvarnir höfðu neikvæð áhrif á rekstur Travel Service í Tékklandi á tímabilinu.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnskostnað, afskriftir og tekjuskatt (EBITDA) hjá íslenskum félögum í samstæðunni eykst hins vegar nokkuð milli ára.



Endurskipulagning gengur vel en rekstrarumhverfi er krefjandi

Vinna við endurskipulagningu á fjármagnsskipan hefur haldið áfram hjá félaginu. Samstarf við viðskiptabanka félagsins gengur vel og er það markmið beggja aðila að klára endurskipulagninguna fyrir komandi vetur.

Ljóst er að rekstrarumhverfið verður mjög krefjandi á næstu misserum en rekstur samstæðunnar í júlí og horfur fram á haustið gefa okkur tilefni til hæfilegrar bjartsýni. Með mikilli elju og dugnaði hefur starfsfólki samstæðunnar tekist að haga málum þannig að mörg jákvæð teikn eru í rekstrinum.

Þannig hefur öflug framboðs-og verðstýring auk markaðsstarfs erlendis leitt til nokkurs rekstrarbata hjá Icelandair milli ára. Einnig hefur sveigjanleiki og rekstraraðhald hjá Flugfélagi Íslands skilað sér í ágætis rekstrarafkomu þrátt fyrir mikinn samdrátt.

Mikið kostnaðaraðhald og öflug tekjustýring hjá Travel Service hefur auk þess skilað sér í því að afkoman er mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Björgólfur segir að Travel Service muni halda áfram á þessum nótum og er EBITDA markmið félagsins fyrir árið í heild nú um 6,5 milljarðar króna, en var 6,0 milljarðar við birtingu uppgjörs fyrir fyrsta ársfjórðung. Ef það næst er um umtalsverðan bata að ræða milli ára, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að EBITDA hjá SmartLynx er áætluð neikvæð um 1,9 milljarða króna á árinu og gjaldfærslu olíuvarna hjá Travel Service að fjárhæð 2,9 milljarðar króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×