Viðskipti innlent

Fréttaskýring: Ríkið beitir bolabrögðum gegn MP Banka

Friðrik Indriðason skrifar: skrifar

Enn liggur ekkert fyrir um samþykki Fjármálaeftirlitsins á kaupum MP Banka á netbanka SPRON og útibúaneti sparisjóðsins. Þetta mál allt er að verða hið einkennilegasta í ljósi þess að Nýja Kaupþing hefur hingað til getað beitt bolabrögðum gegn MP Banka í málinu með fulltingi Seðlabankans og slegið því þannig á frest.

Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að ef mál þetta verður ekki afgreitt í dag eða um helgina muni MP Banki falla frá kaupum sínum á þessum eignum SPRON og gera kröfu um endurgreiðslu á kaupverðinu.

MP Banki er ein af fáum bankastofnunum landsins sem komst á lífi út úr hruni íslenska efnahagskerfisins á síðasta ári. Raunir skilaði MP Banki 860 milljón kr. hagnaði á síðasta ári sem telja verður vel viðunandi árangur í ljósi þess að megnið af bankakerfi landsins hrundi til grunna á sama tímabili.

Kaup MP Banka á fyrrgreindum eignum SPRON fyrir 800 milljónir kr. voru af flestum talin af hinu góða enda ætlaði MP Banki m.a. að tryggja áframhaldandi atvinnu tuga af fyrrum starfsmönnum SPRON. Nú er að verða liðinn mánuður frá því að þessi kaup voru gerð og enn hefur ekki fengist endanlegt leyfi fyrir þeim.

Andstaða Nýja Kaupþings og Seðlabankans gegn kaupum MP Banka fólst í ótta um að áhlaup yrði gert á Kaupþing í formi þess að fyrrum viðskiptavinir SPRON myndu flykkjast með innistæður sínar úr Kaupþingi og yfir í MP Banka. Þegar skilanefnd tók við stjórn SPRON voru þessar innistæður fluttar til Kaupþings.

MP Banki svaraði þessum ótta með því að gera samkomulag fyrr í mánuðinum um að lána Kaupþingi fyrir þeim innistæðum sem fyrrum viðskiptavinir SPRON kynnu að flytja á milli bankanna. Síðan var beðið þess í Fjármálaeftirlitinu að Seðlabankinn veitti umsögn sína um samkomulag þetta. Og enn er beðið eftir því.

Þegar kaupin voru tilkynnt í síðasta mánuði sagði Styrmir Þór Bragason forstjóri MP Banka í samtali við Fréttastofu að hann vonaðist til að málið yrði afgreitt á innan við viku. Eignirnar sem MP Banki væri að kaupa væru þess eðlis að því lengra sem liði þar til málið yrði afgreitt því meira rýrnaði virði eignanna. Miðað við þann tíma sem nú er liðinn má segja að búið sé að stórlaska virði eignanna með andstöðunni sem kaupin hafa mætt.

Einn helsti vonarpeningur stjórnvalda hvað varðar uppgjör á kröfum á hendur stóru bönkunum þremur er að erlendir kröfuhafar komi þar inn sem eigendur. Hingað til hafa kröfuhafarnir ekki sýnt þessu neinn áhuga. Og það verður vart til að glæða áhuga þeirra að jafnvel innlendur banki getur ekki keypt eignir úr þrotabúi annars banka án þess að reynt sé að leggja stein í götu hans af opinberum aðilum.

Athugasemd frá Nýja Kaupþing

„Það er af og frá að bankinn hafi beitt bolabrögðum í þessu máli. Málið hefur verið til umsagnar hjá Frjámálaeftirlitinu sem tekur endanlega ákvörðun um hvort það fari í gegn. Það hafa hinsvegar verið sjónarmið bankans að þegar innstæður fyrrum viðskitpavina Spron færðust yfir til Kaupþings, og það skal tekið fram að við það færðist ekkert fjármagn yfir heldur var það skuld fyrrum Spron við sína viðskiptavini, verður Nýja Kauping stærsti kröfuhafi í eignir fyrrum Spron. Því taldi bankinn eðlilegt að skilanefndin hefði samráð við sig um sölu á útibúaneti Spron. Það er því af og frá að með þessari athugasemd sinni hafi bankinn beitt einhverjum bolabrögðum.“




Tengdar fréttir

Engir fjármunir færðir frá Spron yfir í Nýja Kaupþing

Í ljósi umræðu í fjölmiðlum í dag vill Nýja Kaupþing árétta að í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur SPRON fóru stjórnvöld þess á leit við Nýja Kaupþing að allar innstæður fyrrum viðskiptavina SPRON og nb.is færðust yfir til bankans. Í tilkynningu frá Nýja Kaupþing segir að meginmarkmið stjórnvalda með þessu hafi verið að tryggja aðgengi fyrrum viðskiptavina SPRON að innstæðum sínum enda eru allar innstæður tryggðar samkvæmt yfirlýsingu ríkistjórnarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×