Viðskipti innlent

Sólarkísilvinnslan í Grindavík skapar 250 ný störf

Viðræður um uppsetningu og rekstur á sólarkísilvinnslu í Grindavík eru komnar á skrið eftir að fulltrúar verkefnisins funduðu með bæjarstjórn Grindavíkur og skoðuðu aðstæður í Grindavík á dögunum. Talið er að verksmiðjan skapi 250 ný störf.

„Áform eru uppi um að reisa í fyrsta áfanga sólarkísilvinnslu í tveimur áföngum. Orkuþörf vegna hvors áfanga er um 50 megawött, fyrri áfangi yrði tekinn í notkun 2012 eða 2013 og síðari hlutinn, sem yrði nákvæmlega eins, kæmist í gagnið tveimur til þremur árum síðar. Varanleg störf vegna fyrri hlutans eru um 150 og þegar báðir áfangarnir verða komnir í gang má reikna með um 250 störfum í verksmiðjunni. Þá má gera ráð fyrir að afleidd störf vegna vinnslunnar verði á annað hundrað," segir Jóna Kristin Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar á vefsíðunni grindavík.is.

„Hér er um alþjóðlegt fyrirtæki að ræða sem ræður yfir öflugri þekkingu á þessu sviði og vill setja upp vinnslu á hagkvæmum stað, hvort heldur hérlendis eða annars staðar. Búist er við miklum uppgangi á þessu sviði varðandi virkjun sólarorku með kísilflögum og er félagið eitt af leiðandi aðilum á þessu sviði á heimsvísu," segir Eyþór Arnalds, framkvæmdastjóri Strokks hf., sem er samstarfsaðili að verkefninu.

Viðræður við HS Orku hf. hafa einnig átt sér stað og þar voru aðilar áhugasamir um framgang verkefnisins. Ekkert á að vera því til fyrirstöðu að afhenda orku á næstu þremur árum, gangi skipulagsvinna og rannsóknir við orkuvinnslusvæðið við Eldvörp eftir. Afhending til sólarkísilvinnslunnar mun ekki hafa áhrif á afhendingu orku til álvers í Helguvík, komi til þess.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×