Viðskipti innlent

Spáir því að stýrivextir verði lækkaðir niður í 14%

Greining Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefndin lækki stýrivexti þann 7. maí um 1,5 prósentustig. Fara stýrivextir Seðlabankans við það niður í 14,0%.

Nefndin hefur nú á skömmum tíma eða frá því í mars lækkað vexti úr 18,0% niður í 15,5% og síðast um 1,5 prósentustig þann 8. apríl síðastliðinn.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að talsvert hafi dregið úr verðbólgu frá síðustu vaxtaákvörðun nefndarinnar. Mælist verðbólgan nú 11,9% en var 15,2% þegar vaxtaákvörðunin í mars var tekin.

Verðbólguvæntingar eru litlar og vænta stjórnendur fyrirtækja þess svo dæmi séu tekið að vísitala neysluverðs muni lækka um 2,0% litið til næstu tólf mánaða en samkvæmt verðbólguspá greiningarinnar ætti verðbólgan að hjaðna hratt á næstu mánuðum og vera hverfandi lítil eftir ár.

Dregið hefur enn frekar úr eftirspurn á vinnumarkaði og atvinnulausum fjölgað. Sýnir vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar 7,1% atvinnuleysi á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 2,3% atvinnuleysi á sama ársfjórðungi í fyrra. Þá virðist launaþrýstingur óverulegur en hækkun launavísitölu Hagstofunnar var sú minnsta á fyrsta ársfjórðungi frá því í þjóðarsáttinni í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar.

Fyrir síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndarinnar í apríl hafði krónan lækkað allnokkuð á stuttum tíma eða um 9% frá vaxtaákvörðun nefndarinnar í mars. Taldi nefndin þá að veik staða krónunnar stafaði af tímabundnum þáttum svo sem tiltölulega miklum árstíðabundnum vaxtagreiðslum af skuldabréfum erlendra aðila í íslenskum krónum.

Síðan hefur krónan lækkað enn frekar eða um nær 2% og spurning hver afstaða nefndarinnar er nú. Líklegt er að hún telji núverandi stýrivaxtastig ekki ráðandi fyrir þessa þróun krónunnar innan þess haftafyrirkomulags sem er á gjaldeyrismarkaði og hafi þannig ekki umtalsverðar áhyggjur af því að frekari vaxtalækkun myndi veikja krónuna frekar, segir í umfjöllun greiningarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×