Viðskipti innlent

Rammasamningur færður á nýjar kennitölur Pennans og A4

Ríkiskaup hafa ákveðið að færa einn af rammasamningum sínum við gamla Pennann og A4 yfir á þessi fyrirtæki sem nú starfa undir nýjum kennitölum.

Á vefsíðu Ríkiskaupa er greint frá þessu og segir þar að vegna gjaldþrota Pennans og A4 skrifstofuvara vilja Ríkiskaup koma eftirfarandi á framfæri við viðskiptamenn sína:

„Erindi bárust bæði frá Pennanum og A4 skrifstofuvörum með beiðni um að þeir rammasamningar sem þessi félög voru aðilar að áður en til gjaldþrots kom, yrðu færðir yfir á ný félög á nýjum kennitölum sem stofnuð voru í kjölfarið.

Eftir að hafa fjallað um erindi beggja á viðskiptalegum grundvelli var ákveðið að leyfa yfirfærslu á þeim samningum sem falla undir flokk RK 2.15 sem eru ritföng og skrifstofuvörur.

Forsenda þeirrar ákvörðunar er að þar sem aðeins einn seljandi sé eftir í þessum samningsflokki sé framboð ekki nægt til að fullnægja þörfum kaupenda.

Beiðnum Pennans og A4 skrifstofuvara um yfirfærslu á samningum í öðrum flokkum var hafnað á þeirri forsendu að aðrir seljendur í þessum samningsflokkum séu þess bærir að sinna þörfum kaupenda. Þess ber að geta að útboð munu verða í öllum öðrum RK flokkum sem um ræðir á árinu 2009 nema RK 2.01 Ljósritunarpappír en sá samningur gildir til janúarloka 2010."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×