Skoðun

Treystum vináttubönd við Frakka

Hún er bæði römm og forn, vinataugin sem tengir saman Íslendinga og Frakka. Sagan segir að Sæmundur fróði hafi numið þar í landi á sínum tíma. Hingað reru Íslandssjómenn frá Norður-Frakklandi öldum saman, sóttu auð í greipar hafsins og hlýju í faðm íbúanna. Hingað kom landkönnuðurinn og heimskautafarinn Jean-Baptiste Charcot árum saman á fyrri hluta 20. aldarinnar, til rannsókna og fyrirlestrahalds, og alla síðustu öld var hvers kyns samstarf í miklum blóma, einkum á sviði lista, menningar og vísinda.

Fjölmörg nýleg sannindamerki eru um það hve mikið Frakkar leggja upp úr því að rækta vináttuna við okkur Íslendinga. Þrjú dæmi frá undanförum árum mætti nefna. Í fyrsta lagi menningarhátíðina Pourquoi pas? þar sem Risessan eftirminnilega og fjölmargir aðrir þarlendir gestir sóttu okkur heim og sýndu okkur snilli sína. Í öðru lagi skilvirka og vinsamlega heimsókn flugsveitar franska flughersins í fyrrasumar sem sá um eftirlit í lofthelgi okkar um skeið. Og í þriðja lagi sýndu frönsk yfirvöld okkur afar mikinn skilning þegar efnahagskreppan skall á hér í haust og gerðu sitt til að greiða götu okkar, en Frakkar voru þá í forystu í ESB.

Með ráðningu Evu Joly erum við loks farin að nýta okkur þessi vináttubönd við Frakka betur, og þó fyrr hefði verið, en í ljósi ýmissa fleiri mála (Íraksmálsins til dæmis) væri okkur ef til vill hollara og heilladrýgra að hlusta á, starfa meira með og læra af þessari fornu og traustu vinaþjóð okkar. Rækta vináttuna við þá, báðum þjóðum til hagsbóta. Þetta er verðugt umhugsunarefni í dag, þegar nákvæmlega tvö hundruð og tuttugu ár eru liðin frá því Frakkar hristu af sér hlekki óréttlætis og kúgunar þáverandi þjóðskipulags. Gætum við ef til vill eitthvað lært af því?

Höfundur er forseti Alliance française í Reykjavík.






Skoðun

Sjá meira


×