Viðskipti innlent

OECD: Lífsnauðsyn að koma ríkisfjármálum á réttan kjöl

Aðgerðir til að koma ríkisfjármálunum á réttan kjöl eru sagðar lífsnauðsynlegar í Íslandskafla nýrrar hagspár Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Lögð er áhersla á að þær verði að fullu komnar til framkvæmda hið fyrsta til þess að rekstur ríkissjóðs verði sjálfbær á ný.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans þar sem fjallað er um nýja skýrslu OECD. Í henni er lagt er til að áherslur peningastefnunnar verði áfram að halda genginu stöðugu en að gjaldeyrishöftum verði aflétt eins fljótt og mögulegt er til að ná að nýju tengslum við erlenda fjármagnsmarkaði, fyrirtækjum til hagsbóta.

Í skýrslunni, sem ber heitið „Economic Outlook" og OECD gefur út tvisvar sinnum á ári, er fjallað um þá þætti sem hafa áhrif á framþróun efnahagsmála til skemmri tíma og hvert hagkerfi aðildarríkjanna stefna. Þá er ennfremur fjallað um hvernig megi stuðla að vexti og stöðugu verðlagi innan aðildarríkjanna. Í ritinu er því hagspá fyrir hin 30 aðildarríki OECD auk 10 annarra ríkja sem og evrusvæðisins.

Í Hagsjánni segir að óvissa um bata hagkerfa heimsins og fjármálakerfa eru stórir áhættuþættir og eiga við hagspár allra landanna samkvæmt OECD. Þá eru að auki teknir fyrir sérstakir áhættuþættir fyrir Ísland en þar eru afnám gjaldeyrishafta annars vegar og tímasetning hugsanlegra stóriðjuframkvæmda hins vegar efst á blaði.

Tekið er fram að lækki gengi krónunnar mikið við afnám gjaldeyrishaftanna muni það hafa neikvæð áhrif á heimilin og fyrirtækin í landinu. Gefi gengið hins vegar lítið eftir, eða hækki, muni þvert á móti draga úr vandræðum heimila og fyrirtækja sem skuldsett eru í erlendum gjaldmiðlum og gæti þá Seðlabankinn í kjölfarið lækkað stýrivexti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×