Erlent

Smáhlutir Ingimars Bergmann seldust á uppboði

Óli Tynes skrifar
Ýmsir smáhlutir sem voru í eigu sænska leikstjórans Ingimars Bergmann seldust fyrir samtals 320 milljónir íslenskra króna á uppboði í Stokkhólmi í gær.

Um 8000 manns mættu á uppboðið í Stokkhólmi þar sem voru boðnir um 337 smáhlutir sem voru í eigu Bermanns. Auk þess fékk heimasíða uppboðshaldarans heimsóknir frá yfir 100 löndum á dögunum fyrir uppboðið.

Meðal þeirra voru verðlaunagripir sem hann hafði fengið fyrir kvikmyndir sínar, náttborð með minnismiðum sem hann hafði skrifað og skrifborðið við hvert hann samdi mörg handrit sín.

Allir þessir gripir seldust langt yfir matsverði. Mest var borgað fyrir taflmennina sem notaðir voru í kvikmyndinni Sjöunda innsiglið. Í þeirri mynd lék Max von Sydow krossfara sem frestaði andláti sínu með því að skora Dauðann í tafl. Taflmennirnir fóru á eina milljón sænskra króna, eða tæpar 18 milljónir íslenskra króna.

Ingimar Bergmann lést árið 2007 89 ára að aldri. Hann leikstýrði yfir fimmtíu kvikmyndum og yfir eitthundrað leikritum. Fjórar sænskar kvikmyndir hafa unnið óskarsverðlaun fyrir bestu erlendu kvikmyndina. Bergmann leikstýrði þrem þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×