Viðskipti innlent

Stoðir greiddu Glitni einn og hálfan milljarð

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Stoðir greiddu einn og hálfan milljarð króna í þóknanir til Glitnis á átta mánaða tímabili árið 2008. Félagið átti þá ráðandi hlut í bankanum.

Fréttastofa hefur undir höndum skýrslu sem endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young gerði um bókhald Stoða í maí á þessu ári. Þar koma ýmsar áhugaverðar upplýsingar fram en margir hafa velt því fyrir sér hvernig fyrirtækið gat tapað 350 milljörðum króna á síðasta rekstrarári. Í skýrslunni eru viðskipti tengdra aðila við FL Group sem nú heitir Stoðir á síðustu 24 mánuðum fyrir greiðslustöðvun auk þess sem allar meiriháttar ráðstafanir eigna eru skoðaðar.

Til tengdra aðila telst Glitnir banki þar sem Stoðir var stærsti eigandi bankans. Þóknanir sem félagið greiddi Glitni á átta mánuðum nema yfir einum milljarði króna.

Ekki er getið um upphæð þóknunarinnar sem bankinn fékk þegar FL Group keypti Tryggingarmiðstöðina. Bankinn fékk aftur á móti 500 milljónir þegar FL Group seldi hluti í Geysi Green Energy í febrúar 2008. Á vormánuðum fékk Glitnir 200 milljónir ef bankinn nýtti kauprétt sinn í fasteignafélagi Íslands og Eikarhaldi sem voru í eigu félagsins. Þá var einnig gerður samningur við Glitni um afskráningu félagsins. Fyrir það fékk bankinn um 300 milljónir. Fyrsta ágúst keypti Glitnir alla hluti í House of Frazier af FL Group. Fyrir það fékk bankinn 500 milljónir í þóknun.

Samtals námu því þóknanir FL Group til Glitnis, sem félagið átti ráðandi hlut í, um einum og hálfum milljarði króna á átta mánaða tímabili.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×