Erlent

Chicago - Ríó - Madríd eða Tókýó?

Það kemur í ljós síðdegis í dag í hvaða borg Ólympíuleikarnir árið 2016 verða haldnir. Fjórar borgir eru um hituna, Chicago í Bandaríkjunum, Rio de Janeiro í Brasilíu, Madríd höfuðborg Spánar og Tókýó höfuðborg Japan. Alþjóða Ólympíunefndin mun tilkynna um sigurvegarann við hátíðlega athöfn í Kaupmannahöfn um klukkan fimm að íslenskum tíma.

Mikið er um dýrðir í borginni og hafa flestir þjóðarleiðtogar landanna fjögurra látið sjá sig í Köben til þess að auka möguleikana á sigri sinnar borgar. Chicago er talin líklegust til að hreppa hnossið og sjálfur Barack Obama er kominn til Danaveldis til þess að leggja sín lóð á vogarskálarnar. Þá hefur sjónvarpsstjarnan Oprah Winfrey einnig látið sjá sig á Strikinu en hún er frá Chicago eins og Obama og hefur alla tíð hampað borginni mikið. Kosið verður í allan dag en í hverri kosningu dettur sú borg út sem fær fæstu atkvæðin.

Að endingu verður síðan kosið á milli tveggja efstu borganna. Forseti Alþjóða Ólympíunefndarinnar, Jaques Rogge segir að sjaldan eða aldrei hafi baráttann um útnefninguna verið jafn hörð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×