Skoðun

Mistök að kaupa Dash 8

Jón Jónsson skrifar

Ég vil byrja bréf þetta á að samhryggjast starfsfólki Landhelgisgæslunnar og íslensku þjóðinni með hina nýju Dash-8 flugvél sem þeir fengu afhenta á dögunum. Það eru nokkur ár síðan gengið var frá kaupum á téðri flugvél, að minnsta kosti virtist þá vera allt í þessu fína í fjármálum ríkisins. En þvílíkt metnaðarleysi og gamaldags afturhaldsstefna að kaupa svona flugvél!

Við hefðum til dæmis getað keypt 8 stykki Fokker-50 frá Japan eða Filippseyjum fyrir 4 milljarðana! Okkur vantaði hins vegar bara eina flugvél, svo að það hefði verið hægt að spara allt að 3 milljarða hefði Fokker-50 leiðin verið farin. Til að gæta allrar sanngirni skal tekið fram að Fokker-50 hefur ekki verið framleidd síðustu 10 ár svo að ég er að tala um notaða F-50.

Fokker-50 er mun öflugri og sterkari flugvél en Dash-8. Dash 8 þarf hins vegar styttri flugbrautir en Fokker-50 en hvaða máli skiptir það fyrir Landhelgisgæsluna? Þeir aðilar sem telja sig hafa sérfræðiþekkingu á þessu máli og ég hef talað við afsaka þessi Dash-8 kaup á því að Dash-8 vélin sé ríkulega búin ýmiskonar tækjum, til dæmis radar, nætursjónaukum og fl. ofl. Það má rétt vera en það kemur Dash-8 eða F-50 bara ekkert við. Þessi góðu tæki má setja nánast í hvaða flugvél sem er og hefur ekkert með tegund að gera. Síðan er rétt að geta þess að Dash-8 er allt of lítil flugvél fyrir Landhelgisgæslu. Þá hefur hún T-stél sem meðal annars skapar hættu að lendi vélin í „stall“. Þá eru miklar líkur á að flugmennirnir nái ekki aftur stjórn á Dash-8 við slíkar aðstæður.

En aftur að metnaðarleysinu. Landhelgisgæslan hefur nú yfir að ráða 2 stórum Puma þyrlum og einni minni Dauphin þyrlu. Eftir að NATO herinn hvarf héðan með sín öflugu tól þá hefur björgunarþjónusta við sjómenn verið meira og minna í uppnámi! Það sem við þurfum hér er tankflugvél sem getur gefið þyrlum eldsneyti á flugi. Við erum NATO-þjóð og hefði ekki til dæmis verið hægt að gera samning við til dæmis Bandaríkjamenn um leigu eða kaup á tankflugvél og öflugri þyrlum? Það er skömm af því að við setjum sjófarendur í aftasta sæti þegar kemur að öryggismálum. Mér finnst að við ættum að selja þessa Dash-8 flugvél til vanþróaðra landa og kaupa til bráðabirgða notaða Fokker-50 þangað til fjárhagur okkar skánar og setja það sem framtíðarmarkmið að sem fyrst verði keypt eða leigð hingað alvöru tankflugvél og útbúnaður til eldsneytistöku á flugi verði settur á Puma þyrlurnar eða keyptar þyrlur með slíkum búnaði.

Við höfum ekki her á Íslandi og þurfum þar að leiðandi ekki að setja krónu í hernað, þannig að við ættum alveg að hafa efni á að eiga lámarks alvöru björgunartæki. Mér þætti vænt um að forstjóri Landhelgisgæslunnar svaraði þessu bréfi á síðum Fréttablaðsins og segði skoðun síða á þessum athugasemdum og segði okkur hver væri hans óskastaða í þessum málum burtséð frá kostnaði.

Höfundur er fyrrverandi vagnstjóri.




Skoðun

Sjá meira


×