Innlent

Fólk treystir dómstólum betur en ríkisstjórn og Alþingi

Tæpur helmingur svarenda í nýrri könnun markaðsrannsóknafyrirtækisins MMR, eða 46,6 prósent, segjast bera mikið traust til Hæstaréttar. 42,3 prósent segjast bera mikið traust til dómsmálaráðuneytisins og 40,3 prósent segjast bera mikið traust til héraðsdómstólanna.

Á móti segist tæpur fjórðungur svarenda bera lítið traust til þessara stofnana að því er fram kemur í könnuninni.

Einnig var spurt um dómskerfið í heild sinni og þá kom í ljóa að 36,5 prósent kváðust bera mikið traust til þess sem er nánast sami fjöldi og segist bera lítið traust til dómskerfisins, eða 34 prósent. „Dómsvaldið mælist þannig njóta mikils trausts meðal töluvert fleiri en aðrar stoðir hins þrískipta ríkisvalds sem mældar voru í samskonar könnun MMR í september síðastliðnum," segir í tilkynningu frá MMR.

Þar reyndist ríkisstjórnin, eða framkvæmdavaldið njóta mikils trausts meðal 21,9 prósenta svarenda og Alþingi, eða löggjafarvaldið, njóta mikils trausts meðal 18 prósenta svarenda. Á móti sögðust 54,8 prósent bera lítið traust til ríkisstjórnarinnar og 52,4 prósent lítið traust til Alþingis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×