Viðskipti innlent

Landsnet útvegar 5 milljarða með skuldabréfaútgáfu

Landsnet hefur nýlokið útgáfu skuldabréfa að fjárhæð 5 milljarða króna. Um er að ræða fyrstu útgáfu fyrirtækisins á innlendum skuldabréfamarkaði og voru bréfin seld til lífeyrissjóða.

Í tilkynningu segir að jákvæð viðbrögð fjárfesta leiddu til verulegrar umframeftirspurnar, en upphaflega voru boðnir út 3 milljarðar króna.

,,Við erum afar ánægð með viðtökur lífeyrissjóðanna og því trausti sem þeir sýna Landsneti", segir Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets. ,,Á næstu árum er framundan uppbygging Suðvesturlína, þar sem unnið verður að endurnýjun og stækkun raforkuflutningskerfisins frá Hellisheiði út á Reykjanes. Verkefnið tengist uppbyggingu orkuiðnaðar á þessu svæði til framtíðar.

Auk þess munu umtalsverðar mótvægisaðgerðir breyta ásýnd viðkvæmra svæða eins og útivistarsvæðisins í Heiðmörk þar sem háspennulínur verða fjarlægðar. Landsnet mun einnig halda áfram að þróa og styrkja núverandi flutningskerfi. Stuðningur fjárfesta er okkur því mjög mikilvægur á þessum tímum".

Saga Capital Fjárfestingarbanki hafði umsjón með útgáfu og sölu skuldabréfanna og mun einnig sjá um skráningu þeirra á Nasdaq OMX á Íslandi. Skuldabréfin eru verðtryggð og gefin út til 25 ára.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×