Viðskipti innlent

Seðlabankinn: Árangur hefur náðst á fjölmörgum sviðum

Peningastefnunefnd Seðlabankans telur að árangur hafi náðst á fjölmörgum sviðum við endurreisn efnahagslífsins á Íslandi. Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands.

Þar kemur fram að lögð hafi verið fram langtímaáætlun í ríkisfjármálum og endurskipulagning bankakerfisins væri langt komin. Auk þess hafi lánasamningar verið gerðir við önnur lönd. Telur nefndin því að Ísland hafi fullnægt nánast öllum skilyrðum efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Hagsjá Landsbankans greindi frá því á föstudag að peningastefnunefnd lýsi þó áhyggjum sínum af umframlausafé á krónumarkaðinum og gjaldeyrisójafnvægi bankanna. Innlán safnist fyrir í bönkum en útlán séu næstum engin.

Sumir nefndarmenn peningastefnunefndar bentu einnig á að lágt gengi krónunnar styddi við enduruppbyggingu efnahagslífsins með því að færa eftirspurn frá innfluttum vörum og þjónustu yfir í innlenda, ásamt því að auka samkeppnishæfni útflutningsgeirans. Þannig væri staða sumra geira atvinnulífsins betri vegna lægra gengis krónunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×