Viðskipti innlent

Ríkisbankar sakaðir um óeðlilega fyrirgreiðslu

Telma Tómasson skrifar

Vísbendingar eru um að ríkisbankarnir veiti fyrirtækjum, sem eru í þeirra eigu, óeðlilega fyrirgreiðslu umfram það sem önnur fyrirtæki fá. Samtök iðnaðarins krefjast jafnræðis og vilja að bankarnir eyði tortryggni á samkeppnismarkaði.

Jón Steindór Valdimarsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir að ekki einasta sé rekstrarumhverfi fyrirtækja erfitt og fordæmalaust vegna aðstæðna í efnahagslífinu, heldur komi því til viðbótar að fjölmörg fyrirtæki séu rekin beint eða óbeint af bönkunum. Það veki upp margar spurningar um hvernig að því sé staðið og hvort slíkt fyrirkomulag leiði til óeðlilegrar og óheilbrigðrar samkeppni við önnur fyrirtæki.

Hefur stjórn Samtaka iðnaðarins sent ríkisbönkunum bréf með fyrirspurn um meðhöndlun og fyrirgreiðslu til fyrirtækja sem eru í eigu þeirra. Er meðal annars spurt hvort þessi fyrirtæki sitji við sama borð þegar kemur að mati við peningaglega fyrirgreiðslu og hvort bankinn beiti sér fyrir því að beina viðskiptum þriðja aðila til þeirra.

Segir í bréfinu að fyrirspurnin sé send í kjölfar sögusagna um að bankarnir veiti eigin fyrirtækjum ríflega fjárhagslega fyrirgreiðslu og skilyrði jafnvel fyrirgreiðslu til þriðja aðila því að viðskiptum sé beint til þessara fyrirtækja. Skil milli eðlilegrar bankastarfsemi og eignarhalds á samkeppnisfyrirtækjum sé því blandað saman með óeðlilegum hætti.

Óskað eftir því að bankarnir varpi skýru ljósi á ofangreind atriði og segir Jón Steindór það þjóna hagmunum allra að þessi mál sé hafin yfir alla gagnrýni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×