Viðskipti innlent

Viðskipti í kauphöllinni minnkuðu um 66% milli mánaða

Heildarviðskipti með hlutabréf í kauphöllinni í apríl mánuði námu rúmum 1.785 milljónum kr. eða rúmum 99 milljónum á dag. Þessu til samanburðar var veltan með hlutabréf í mars mánuði tæpir 4.400 milljónir kr. og minnkaði því um 66% milli mánaðanna.

Í yfirliti frá kauphöllinni um aprílmánuð segir að mestu voru viðskipti með bréf Marel með 1.320 milljónir kr. og með bréf Össurar 422 milljónir kr. Markaðsvirði skráðra félaga var 176 milljarðar kr. í lok síðasta mánaðar og hækkaði um 1,2% á milli mánaða.

Markaðsvirði bréfa Össurar nam rúmum 39 milljörðum kr. og er það félag stærst að markaðsvirði skráðra félaga. Næst í stærð er Marel en markaðsvirði þess nemur rúmum 29 milljörðum og bréf Føroya Banki en markaðsvirði þess er rúmir 28 milljarðar.

Á Aðalmarkaði kauphallarinnar var Saga Capital með mestu hlutdeildina 39,9% (29,1% á árinu), Íslandsbanki með 22,1% (14,8% á árinu) og NBI með 16,5% (13,0% á árinu).

Heildarviðskipti með skuldabréf námu tæpum 103 milljörðum kr. í síðasta mánuði sem samsvarar 5,7 milljarða veltu á dag. Í marsmánuði nam veltan 8,5 milljörðum á dag. Mest voru viðskipti með lengstu flokka ríkisbréfa.

Alls námu viðskipti með ríkisbréf 51,4 milljörðum kr. en viðskipti með íbúðarbréf námu 44 milljörðum. Heildarmarkaðsvirði skráðra skuldabréfa nam tæpum 1.693 milljörðum og hækkaði um 0,2% milli mánaða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×