Viðskipti innlent

Fær 10 milljarða á mánuði í afborgunum og vöxtum

Ingimar Karl Helgason skrifar

Íslandsbanki fær um tíu milljarða króna í afborganir af lánum, í hverjum mánuði. Um helmingur þess eru vextir. Ný útlán bankans nema hins vegar ekki nema einum til tveimur milljörðum á mánuði.

Kröfuhöfum í gamla Glitni stendur til boða að eignast Íslandsbanka, sem upp úr hruni var nefndur Nýi Glitnir. Rætt er um að kröfuhafarnir geti eignast níutíu og fimm prósenta hlut.

Upplýsingar um fjármál Íslandsbanka voru birtar á fundi með kröfuhöfum í gamla Glitni, tuttugasta og annan september síðast liðinn. Fundargerðin hefur verið birt á heimasíðu gamla bankans. Þar kemur meðal annars fram að greiðslur af lánum nemi um tíu milljörðum króna á mánuði. Um það bil helmingur, fjórir komma sjö milljarðar króna, séu vextir. Hins vegar hafi verið dregið úr útgreiðslum, nýjum lánum. Þau nemi einum til tveimur milljörðum króna á mánuði.

Spurt var á kröfuhafafundinum um hversu mikið hefði verið niðurfært af skuldum, það er hversu mikið lánabók bankans hefði rýrnað, vegna þess að höfuðstóll skulda hafi verið lækkaður. Stjórnendur Íslandsbanka vildu ekki svara því á fundinum. Þá var einnig spurt um afskriftir, en engar upplýsingar gefnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×