Viðskipti innlent

Aukin sókn í leiguhúsnæði, samningum fjölgar um 47%

Alls var þinglýst 764 leigusamningum nú í nóvembermánuði sem eru 12% aukning frá sama mánuði í fyrra. Á milli ára í heild er um 47% aukningu að ræða. Þessi aukning er í takt við þá þróun sem hefur verið á árinu sem lýsir sér í aukinni sókn í leiguhúsnæði.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að á fyrstu ellefu mánuðum ársins höfðu alls 9.962 leigusamningum með íbúðarhúsnæði verið þinglýst samanborið við 6.765 á sama tímabili fyrir ári. Þetta jafngildir 47% aukningu á milli ára. Það er Fasteignaskrá Íslands sem tekur saman þessi gögn og birti í gær.

Á fyrstu ellefu mánuðum þessa árs hafa um 1.850 kaupsamningum með íbúðarhúsnæði verið þinglýst á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru 44% færri en á sama tímabili í fyrra og einungis um fimmtungur af heildarfjölda þeirra á sama tíma árið 2007.

Er því ljóst að veruleg umskipti hafa orðið í þessum málum hér á landi sem ætti ekki að koma á óvart miðað við það efnahagsumhverfi sem heimilin búa við, þ.e. vaxandi atvinnuleysi, kaupmáttarrýrnun og lækkun á húsnæðisverði.

Er því ljóst að mun fleiri en áður taka þann kost að leigja fremur en að láta fé sitt undir í íbúðarkaup. Auk þess má taka það með í reikninginn að hluti þeirra erlendu aðila sem voru umfangsmiklir á leigumarkaðnum fyrir bankahrunið hefur horfið af landi brott.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×