Viðskipti innlent

BBC: Íslendingar prjóna sig út úr kreppunni

Prjónaskapur hefur ekki verið vinsælli meðal íslensku kvennþjóðarinnar síðan á nítjándu öld og nú hefur BBC tekið málið upp undir fyrirsögninni „Ísland prjónar sig út úr kreppunni".

Um er að ræða pistil sem hinn skeleggi fréttaritari RUV í London, Sigrún Davíðsdóttir, hefur tekið saman og birtur er á BBC vefnum í dag. Þar greinir Sigrún frá því að í nýlegri heimsókn til Íslands hafi eiginkona frænda hennar sýnt henni ýmsar fagrar flíkur sem hún hefur prjónað í vetur. Eiginkonan sagði Sigrúnu jafnframt að allir væru að prjóna þessa dagana á Íslandi. Þetta nýja æði væri orðið fréttaefni.

Í pistli sínum segir Sigrún: „Efnahagserfiðleikarnir eða „kreppan" hefur uppfært gamla málsháttinn um að „neyðin kenni naktri konu að spinna" og að kreppan hafi endurvakið prjónaskapinn. Sigrún segir að hún muni eflaust prjóna með vinum sínum og ættingjum næst þegar hún kemur til Íslands.

Við þetta má svo bæta að í nær allan vetur hafa fastagestir Grand Rokk, það er konurnar, setið löngum stundum og prjónað af miklum móð. Teppi, treflar og aðrar algengar prjónaflíkur hafa oltið út á milli fingra þeirra í stríðum straumum. Jafnvel hefur sést til eins og eins af körlunum reyna sig við prjónaskapinn með misjöfnum árangri. Aðspurðar segja konurnar að þetta sé „svo róandi".

Fleiri en Sigrún hafa haft orð á þessu nýja æði meðal Íslendinga, einkum kvennþjóðarinnar. Nú til dags þykir engin kona með konum nema hún geti vippað upp eins og einum trefli síðdegis og fram á kvöld.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×