Viðskipti innlent

Stoðir tapaði 350 milljörðum

Aðalfundur eignarhaldsfélagsins Stoða var haldinn í dag. Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2008 var tekið mið af mati á verðmæti eigna og lýstum kröfum lánardrottna Stoða í tengslum við nauðasamninga sem félagið gerði við kröfuhafa í vor, að fram kemur í fréttatilkynningu. Bókfært tap Stoða frá 1. júlí 2008 til 31. desember 2008 nam 291,2 milljörðum króna. Samanlagt bókfært tap móðurfélags og dótturfélaga vegna rekstrarársins 2008 nam 350,6 milljörðum króna.

Fjárhagslegri endurskipulagningu Stoða er lokið. Heildareignir félagsins námu 32 milljörðum króna í lok júní 2009 og var eiginfjárhlutfall félagins 69%. Fjármögnun félagsins hefur því verið tryggð til langs tíma, að fram kemur í tilkynningunni. Kröfuhafar Stoða eignuðust fyrr á árinu allt hlutafé í Stoðum en stærstu eignir Stoða eru Tryggingarmiðstöðin og Refresco. Aðalfundur eignarhaldsfélagsins var haldinn í dag.

Í tilkynningunni segir að endurskipulagning fjárhags Stoða hafi verið byggð á þremur meginþáttum. „Í fyrsta lagi samþykktu hluthafar Stoða að afskrifa allt hlutafé sitt í félaginu. Í öðru lagi náðust samningar við tryggða kröfuhafa um skuldajöfnun, endurfjármögnun skulda og greiðslu hluta veðtryggðra skulda með forgangshlutafé í Stoðum. Í þriðja lagi voru ótryggðar kröfur gerðar upp með reiðufé og almennu hlutafé í Stoðum í samræmi við nauðasamninga, sem samþykktir voru með öllum greiddum atkvæðum kröfuhafa. Kröfuhafar Stoða eignuðust þannig allt hlutafé í félaginu samhliða því sem fjármögnun félagsins var tryggð til langs tíma."

Heimtur allra kröfuhafa Stoða voru metnar um 27% síðastliðið vor miðað við verðmæti eignasafns Stoða í aðdraganda nauðasamninga. „Meginforsenda endurskipulagningar Stoða var að hagsmunum kröfuhafa væri best borgið með því að halda starfsemi félagsins áfram, í trausti þess að verðmæti eignasafns félagsins muni hækka í framtíðinni, kröfuhöfum og núverandi hluthöfum til hagsbóta. Endanlegar heimtur munu þannig ráðast af framtíðarverðmæti eignasafns Stoða."

Í tilkynningunni segir að helstu eignir Stoða séu 99,1% hlutur í Tryggingamiðstöðinni (TM) og 51% hlutur í evrópska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco. Meðal annarra eigna Stoða má nefna eignarhluti í Royal Unibrew, Nordicom, Glacier Renewable Energy Fund og Inspired Gaming.

Hluthafar Stoða eru nú 112 talsins. Þrír hluthafar fara með yfir 10% af atkvæðamagni hlutabréfa: Glitnir, NBI og Arion banki. Stjórn Stoða, sem fyrst var kjörin á hluthafafundi þann 17. júlí og var endurkjörin á aðalfundinum í dag, skipa Eiríkur Elís Þorláksson, Sigurjón Pálsson og Sigurður Jón Björnsson. Starfsmenn Stoða eru þrír talsins að Jóni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra félagsins, meðtöldum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×