Viðskipti innlent

Eik Banki afskrifar SPRON-hlut, fær tiltal frá stjórnvöldum

Eik Banki hefur ákveðið að afskrifa 8,44% hlut sinn í SPRON en bankinn keypti hlutinn á sínum tíma fyrir um 40 milljónir danskra kr. eða um einn milljarð kr. Félagaskrá Færeyja, Skraseting, gagnrýnir stjórn bankans harðlega fyrir kaupin.

Í umfjöllun um málið á börsen.dk kemur fram að kaupin voru gerð í gegnum einn af sjóðum bankans, Eik Fonden. Í bréfi sem Skraseting hefur sent Eik Banki kemur m.a. fram að stjórn sjóðsins hafi borið að biðja Skraseting um leyfi áður en kaupin á SPRON-hlutnum fóru fram.

Vitnað er í viðtal sem Jyllands-Posten átti við Kristin Balle skrifstofustjóra Skraseting sem segir að þau muni ekki beita Eik Banki neinum viðurlögum í þetta sinn. „En komi þetta fyrir aftur munum við taka hart á því," segir Balle.

Formaður Eik Fonden, Fritleif Olsen, sér ekki að hann eða Eik Fonden hafi brotið nokkuð af sér. Olsen hefur áður sagt að kaupin hafi verið gerð með það að markmiði að betrumbæta orðstír Eik Banki á Íslandi.

Hinsvegar mun Eik Fonden hafa keypt fyrrgreindan hlut í SPRON eftir að viðskipti með hluti í SPRON höfðu verið stöðvuð í kauphöllinni í nokkrar vikur. Um það vill Olsen ekki tjá sig.

Olsen segist taka mark á ummælum Skraseting en heldur því enn fram að ekkert hafi verið athugavert við kaupin. „Ég hef reynt að gera mitt besta fyrir bæði bankann og sjóðinn," segir Olsen.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×