Viðskipti innlent

Marel ákveður 6 milljarða króna hlutafjárútboð

Stjórn Marel ákvað í dag að efna til hlutafjárútboðs meðal fagfjárfesta sem miðar að því að auka hlutafé félagsins um 15% (92,4 milljónir hluta). Miðað við 15% hlutafjáraukningu er heildarsöluverðmæti útboðsins um 6 milljarðar króna eða um 32 milljónir evra.

Í tilkynningu til kauphallarinnar segir að útboðið verður með áskriftarfyrirkomulagi („book building") og verða hlutir seldir á verðbilinu 63-65 krónur á hlut. Endanlegt útboðsverð og úthlutun hluta verða ákveðin í lok útboðsins.

Tilgangurinn með útboðinu er að styrkja frekar fjárhagsgrunn Marel, draga úr gengisáhættu og lækka fjármögnunarkostnað. Fjárfestum verður boðið að greiða fyrir ný hlutabréf með reiðufé og/eða skuldabréfum sem Marel hefur gefið út og skráð í kauphöll (MARL 06 1 og MARL 09 1). Gera má ráð fyrir að útboðið muni auka breidd hluthafahóps félagsins og auka hlutfallslega eign almennra hluthafa („free-float").

Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn hafa sameiginlega umsjón með útboðinu. Skilmálar útboðsins verða tilgreindir nánar í lýsingu sem félagið mun birta 24. nóvember 2009. Að auki verður útboðið sérstaklega kynnt fyrir fagfjárfestum 24.-25. nóvember 2009.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×