Viðskipti innlent

Dregst einkaneysla saman um 20% á árinu?

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Seðlabankinn birti uppfærða hagspá samhliða vaxtaákvörðun í síðustu viku. Bankinn gerir ráð fyrir 20% samdrætti einkaneyslu á árinu 2009, en einkaneysla er stærsti einstaki liðurinn í landsframleiðslu Íslendinga og því mikilvægur fyrir þróun hagvaxtar.

Greiningardeild Kaupþings veltir því fyrir sér hversu líklegt sé að þessi spá Seðlabankans gangi eftir,

Mæling á greiðslukortanotkun Íslendinga gefur ágæta vísbendingu um þróun einkaneyslu. Samdráttur í greiðslukortanotkun var 15-20% á öðrum ársfjórðungi sem er heldur minni samdráttur en á þeim fyrsta. En engu að síður er þessi þróun í takti við einkaneysluspá Seðlabankans fyrir árið í heild.

Seðlabankinn gerir ekki ráð fyrir að einkaneysla landsmanna fari í gegnum neinn rússíbana á seinni helmingi ársins, menn þar á bæ virðast gera ráð fyrir svipuðum samdrætti milli ára á seinni helmingi árs og þeim fyrri.

Lykilforsendan fyrir að það gangi eftir er hinsvegar að krónan haldist tiltölulega stöðug, en veikara gengi myndi leiða til meiri samdráttar einkaneyslu en Seðlabankinn spáir.

Raunar er krónan nú þegar 10% veikari en hún var á fyrri helmingi ársins sem eru út af fyrir sig neikvæð tíðindi fyrir þróun einkaneyslunnar.

Það vekur einmitt athygli að Seðlabankinn gerir í nýjustu spá sinni ráð fyrir minni samdrætti í einkaneyslu en áður, þrátt fyrir lakari horfur fyrir gengis- og verðbólguþróun. Er nú gert ráð fyrir að einkaneysla dragist saman um 20% í stað 24% í fyrri spá bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×