Viðskipti innlent

Líklegt að ríkið þurfi frekara lánsfé á árinu

Tölur um lánsfjárþörf ríkissjóðs á fyrstu sjö mánuðum ársins sem birtar voru í gær benda til þess að hugsanlega þurfi ríkissjóður að afla sér meira lánsfjár á árinu en áætlanir ríkisins gera nú ráð fyrir. Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en greiningin reiknar með því að engin ákvörðun um frekari útgáfu verði tekin fyrr en á síðasta ársfjórðungi.



Mikil lánsfjárþörf ríkissjóðs á fyrstu mánuðum ársins

Á fyrstu sjö mánuðum ársins var hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs 81 milljarður króna samkvæmt tölum sem fjármálaráðuneytið birti í gær. Tekjustofnar ríkisins hafa dregist hratt saman í kreppunni og kostnaður aukist. Má reikna með því að tekjuafkoma ríkissjóðs verði verri og lánsfjárþörf meiri eftir því sem árið líður og kreppan grefur sig dýpra.

Í þessu ljósi má reikna með því að lánsfjárþörf ríkissjóðs í ár verði meiri en þeir 145 milljarðar sem áætlað var í upphafi árs.



Ekki meira boðið út fyrr en á fjórða ársfjórðungi


Reikna má með að með fjáraukalagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem væntanlegt er þegar þing kemur saman í upphafi október, muni sjást skýrari línur um hvort ríkið þurfi að afla sér lánsfjár á þessu ári umfram það sem þegar hefur verið gert.

Ólíklegt er að neinar ákvarðanir um frekari lántökur ríkissjóðs á árinu verði teknar fyrr en þá þó svo að markaðsaðstæður séu á margan hátt ákjósanlegar fyrir útgáfu ríkisskuldabréfa um þessar mundir.

Að mati Greiningar Íslandsbanka er líklegt að Lánasýslan muni afla þessa aukna lánsfjár á síðasta ársfjórðungi ef til þess þarf að koma og útgáfan á þriðja ársfjórðungi verði ekki meiri en orðin er. Viðbótin verður að þeirra mati lítil, eða innan við 30 milljarðar króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×