Viðskipti innlent

Heildarlán ÍLS drógust saman um 38% milli mánaða

Alls námu heildarútlán Íbúðalánasjóðs (ÍLS) rúmlega 1,8 milljörðum króna í október. Þar af voru rúmir 1,5 milljarðar vegna almennra lána og tæpar 300 milljónir vegna annarra lána. Heildarútlán sjóðsins drógust því saman um tæp 38% frá fyrra mánuði.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu ÍLS fyrir október. Þar segir að meðalútlán almennra lána voru um 9,3 milljónir króna í október sem er um 7% lægra en í fyrra mánuði. Heildarútlán sjóðsins nema því rúmum 26 milljörðum króna það sem af er árinu 2009 en það eru um 51% minni útlán en á sama tímabili árið 2008.

Heildarvelta íbúðabréfa í október nam tæpum 97 milljörðum króna en það er 17% meiri velta en í fyrra mánuði. Heildarvelta bréfanna nemur rúmum 809 milljörðum það sem af er árinu 2009. Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa í HFF24, HFF34 og HFF44 lækkaði í október um 3 til 19 punkta eftir flokkum en í HFF14 hækkaði hún aftur á móti um 4 punkta.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu um 6,9 milljörðum króna í október og voru afborganir íbúðabréfa stærsti hluti þeirra. Uppgreiðslur lána Íbúðalánasjóðs í október námu um 594 milljónum króna. Heildaruppgreiðslur allra lána Íbúðalánasjóðs eru því um 7,1 milljarður króna það sem af er árinu 2009.

Þann 7. október birti Íbúðalánasjóður endurskoðaða áætlun um útgáfu, útboð íbúðabréfa og greiðslur sjóðsins fyrir árið 2009. Sjóðurinn áætlar að gefa út íbúðabréf að nafnverði 19-21 milljarð króna á árinu, sem er lækkun um 9-11 milljarða frá fyrri tölum. Áætlað er að ný útlán verði 31-33 milljarðar króna á yfirstandandi ári sem er lækkun um 5-7 milljarða frá fyrri áætlun. Íbúðalánasjóður áætlar að greiða lánardrottnum sínum 62-64 milljarða króna á árinu en það er hækkun um 2 milljarða frá fyrri áætlun.

Þann 23. október 2009 voru samþykkt á Alþingi lög um greiðslujöfnun fasteignaveðlána sem er aðgerð í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna bankahrunsins. Þar meðurðu breytingar á lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga nr. 63/1985.

Helstu breytingar eru að sett er þak á greiðslujöfnun fasteignaveðlána þannig að lán lengjast að hámarki um þrjú ár. Ef einhverjar eftirstöðvar eru af láninu að þeim tíma liðnum falla þær niður. Öll verðtryggð fasteignaveðlán sem eru í skilum fara sjálfkrafa í greiðslujöfnun frá og með desembergjalddaga nema lántaki afþakki breytinguna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×