Viðskipti innlent

Endurreisn hlutabréfamarkaðar lykilforsenda endurreisnar

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hélt í dag erindi um lífeyrissjóðina og uppbyggingu atvinnulífsins hjá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Þar sagði Vilhjálmur m.a. að endurreisn hlutabréfamarkaðarins væri ein af lykilforsendunum fyrir endurreisn atvinnulífsins til framtíðar.

Lífeyrissjóðirnir gegni þar mikilvægu hlutverki, það sé bæði hagur samfélagsins og lífeyrissjóðanna. Hins vegar þurfi að læra af reynslunni og byggja markaðinn upp af meiri fagmennsku og aga.

Fjallað er um erindi Vilhjálms á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins. Þar segir að Vilhjálmur sagði ljóst að íslenskur hlutabréfamarkaður væri í dag ekki svipur hjá sjón og markaður með skuldabréf fyrirtækja ónýtur. Hann nefndi t.d. að í árslok 2007 voru íslensk hlutabréf tæp 19% af eignasafni lífeyrissjóðanna en nú eru þau um 2% eignasafnsins.

Jafnframt að í árslok 2007 voru markaðsskuldabréf íslenskra fyrirtækja tæp 11% af eignasafninu en hlutfallið er nú 7,5%. Einnig að erlend hlutabréf voru tæp 20% eignasafnsins í árslok 2007 en eru nú 22,4%. Vilhjálmur sagði að lífeyrissjóðir væru almennt stórir fjárfestar í hlutabréfum, ekki bara á Íslandi, og OECD hafi ráðlagt þeim að hætta ekki að fjárfesta í hlutabréfum þar sem miklu máli skipti að vera inni á markaðnum þegar hann tekur við sér á ný.

„Aðalmarkmið lífeyrissjóðanna er að ná hámarksávöxtun á grundvelli ásættanlegrar áhættu og heilbrigðs viðskiptasiðferðis," sagði Vilhjálmur að væri eitt af grundvallarsjónarmiðum í rekstri sjóðanna en samfélagsleg ábyrgð þeirra felist í að geta staðið við skuldbindingar sínar gagnvart sjóðsfélögum. „Samfélagsleg ábyrgð lífeyrissjóða felst einnig í að verða samfélaginu öllu til gagns í fjárfestingum sínum, þ.á.m. að stuðla að viðgangi atvinnulífsins á heilbrigðum grunni," segir Vilhjálmur.

Til stendur að lífeyrissjóðirnir stofni innan hálfs mánaðar Framtakssjóð Íslands. Vilhjálmur sagði að ávöxtun eigna sjóðanna væri aðalmarkmiðið með þátttöku í framtakssjóðnum en innan hans yrðu kraftar lífeyrissjóðanna sameinaðir til að tryggja sem best fagleg vinnubrögð við endurreisn atvinnulífsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×