Viðskipti innlent

Stjórnendur: Slæmar eða mjög slæmar aðstæður í efnahagslífinu

Aðstæður í efnahagslífinu eru nú slæmar eða mjög slæmar að mati 95% stjórnenda í stærstu fyrirtækjum landsins. Er þetta meðal niðurstaðna í ársfjórðungslegrar könnunar Capacent Gallup á stöðu og horfum hjá 500 stærstu fyrirtækja landsins, en könnunin var gerð í septembermánuði.

Fjallað er um könnunina á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins. Þar segir að mat stjórnenda á aðstæðum í efnahagslífinu að þessu sinni sé ámóta slæmt og fram hefur komið í hliðstæðum könnunum undanfarið ár.

Mikill samdráttur fjárfestingar í atvinnulífinu endurspeglast með skýrum hætti í könnuninni. Útlit er fyrir að fjárfesting muni dragast saman um 20% að nafnvirði á næsta ári eða um 26% að raunvirði, en í þjóðhagsáætlun er hins vegar spáð rösklega 10% magnaukningu á næsta ári.

Þegar horft er sex mánuði fram í tímann kemur fram ívið jákvæðara mynd þar sem um fjórðungur stjórnenda býst við að aðstæður verði þá nokkuð betri. Þriðjungur þeirra telur engu að síður að aðstæður verði verri að sex mánuðum liðnum. Í heild er því ekki vænst umbóta á næstu sex mánuðum.

Þegar stjórnendur reyna hins vegar að skyggnast 12 mánuði fram í tímann, eykst bjartsýnin. Telja um 62% þeirra að aðstæður verði þá nokkuð betri en aðeins um 22% að þær verði verri. Raunar er þetta áþekk niðurstaða og kom fram í samsvarandi könnunum fyrir 6 og 12 mánuðum síðan og lýsir e.t.v því að stjórnendur haldi í von um að aðstæður fari batnandi að ári liðnu þótt skýr merki um það skorti á næstu mánuðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×