Viðskipti innlent

Heimilin herða sultarólina, ferðamenn eyða meiru

Lítið lát er á samdrætti einkaneyslu hérlendis ef marka má nýbirtar tölur um kortaveltu og veltu í smásöluverslun. Virðast heimilin skera við nögl flest annað en brýnustu nauðsynjar þessa dagana. Hinsvegar eyða ferðamenn fé á landinu sem aldrei fyrr.

 

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að samkvæmt tölum Seðlabankans var innlend kreditkortavelta í ágúst 24% minni að raunvirði en á sama tíma í fyrra, og erlend kreditkortavelta dróst saman um helming á tímabilinu. Minni breytingar urðu hins vegar á debetkortaveltu á sama tíma.

 

Ef tekin er saman kreditkortavelta í heild og debetkortavelta í innlendum verslunum kemur í ljós að samdráttur í slíkri kortaveltu í ágúst var 16,5% frá sama mánuði í fyrra. Fylgni breytinga í kortaveltu, reiknað með þessum hætti, og einkaneyslu er veruleg. Sé tekið mið af þróun í júlí og ágúst teljum við að samdráttur í einkaneyslu á 3. fjórðungi ársins gæti reynst á bilinu 12 - 15% frá sama tíma í fyrra.

 

Til samanburðar reyndist samdráttur einkaneyslu 17% á 2. fjórðungi ársins og 23% á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofu. Það virðist því eitthvað vera að draga úr samdrættinum þó að hann sé enn verulegur.



Í tölum Seðlabanka er einnig gagnleg sundurliðun á kortanotkun erlendra aðila hér á landi. Kortanotkun útlendinga reyndist 90% meiri í krónum talið í ágúst en á sama tíma árið 2008, og er það í takti við þróunina það sem af er ári. Fróðlegt er að bera saman þessa kortanotkun og kortanotkun Íslendinga á erlendri grundu.

 

Frá því Seðlabankinn hóf að taka saman tölur um kortaveltu erlendra aðila í september 2002 og fram til maí síðastliðins var erlend velta Íslendinga ávallt meiri í mánuði hverjum en kortanotkun útlendinga hérlendis.

 

Í júní snerist dæmið hins vegar við, og í júlí og ágúst reyndist kortanotkun útlendinga hér á landi u.þ.b. 3,7 milljörðum kr. meiri í hvorum mánuði en notkun Íslendinga erlendis. Þetta er sterk vísbending um að verulegur afgangur á þjónustujöfnuði sé í vændum á 3. ársfjórðungi, og telur greiningin að afgangurinn geti numið allt að 20 milljörðum kr.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×