Viðskipti innlent

Efnt til ritgerðarsamkeppni á meistarastigi

Frá undirritun samningsins í húsakynnum Ríkiskaupa í morgun.
Frá undirritun samningsins í húsakynnum Ríkiskaupa í morgun.
Í tilefni af 60 ára afmæli Ríkiskaupa á þessu ári hefur stofnunin gert samstarfssamning um ritgerðasamkeppni við fjórar deildir Háskóla Íslands.

Með samningnum, sem er við viðskiptafræðideild, lagadeild, hagfræðideild og stjórnmálafræðideild við Háskóla Íslands, vilja stjórnendur Ríkiskaupa leggja sitt af mörkum til að stuðla að aukinni þekkingu á opinberum innkaupum bæði fræðilega sem og hagnýtum aðferðum innkaupa.

Telja stjórnendur Ríkiskaupa að með samstarfi við Háskóla Íslands sé hægt að stuðla enn frekar að aukinni þekkingu á opinberum innkaupum bæði fræðilega sem og verklega.

Samkeppnin er um styrki til að skrifa ritgerðir á meistarastigi skólaárið 2009-2010 og rétt til þátttöku eiga allir skráðir meistaranemar í þeim deildum er koma að samstarfssamningnum. Efni ritgerðanna þarf að tengjast opinberum innkaupum hérlendis og hafa möguleika á að stuðla að framförum á því sviði.

Ritgerðirnar sem verða fyrir valinu í samkeppnina verða metnar af dómnefnd sem skipuð verður einum fulltrúa frá hverri deild HÍ sem þátt tekur og tveimur fulltrúum frá Ríkiskaupum. Samkeppnin fer af stað frá og með 20. ágúst 2009. Ritgerðartillögum skal skila inn í síðasta lagi 20. október.

Niðurstöður nefndarinnar úr forvalinu verða kynntar á Innkauparáðstefnu Ríkiskaupa sem haldin verður fyrstu viku í nóvember 2009. Þær tillögur er nefndin velur munu síðan keppa til úrslita.

Innkaup hjá hinu opinbera á Íslandi hafa mikil áhrif á hagkerfið sem heild. Umfang opinberra innkaupa í löndum Evrópusambandsins er talið vera um 16% af landsframleiðslu.

Vægi þeirra er þó breytilegt á milli landa Evrópusambandsins allt frá 11% upp í 20% af landsframleiðslu. Ef notuð er reikniregla Evrópusambandsins má gera ráð fyrir að á Íslandi verði útgjöld hins opinbera í innkaupum rúmlega 200 milljarðar á árinu. Ljóst er því að til mikils er að vinna með hagfelldari aðferðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×