Innlent

Eva Joly fordæmir Breta vegna Icesave

Eva Joly kemur víða við í grein sinni í Morgunblaðinu.
Eva Joly kemur víða við í grein sinni í Morgunblaðinu. Mynd/Daníel
Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins, fordæmir framferði Breta í Icesave málinu og átelur einnig Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ESB í harðorðri grein í Morgunblaðinu í dag.

Greinin birtist samtímis í norska dagblaðinu Aftenposten, breska dagblaðinu Daily Telegraph og franska stórblaðinu Le Monde. Í greininni fer hún hörðum orðum um viðsemjendur Íslendinga í Icesave deilunni og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að málinu sem hafi varið hagsmuni langt utan íslensku strandlengunnar.

„Ábyrgðarlaus afstaða sumra ríkja, Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart hruni íslenska efnahagskerfisins sýnir að þau eru ófær um að draga lærdóm af hruni þess samfélags sem Ísland var holdgervingur fyrir - þ.e. samfélagsi óhefts markaðsfrelsis, einkum frjálsra fjármálamarkaða, sem þessir sömu aðilar tóku þatt í að móta," segir Eva í greininni.

Eva segir Gordgon Brown, forsætisráðherra Bretlands, bera siðferðilega ábyrgð á hruni efnahagskerfisins þar sem hann hafi verið fremstur í flokki þeirra sem hömpuðu því skipulagi sem nú er komið í þrot. Þá átelur hún hann fyrir að skýla sér á bak við lagalega stöðu sína í Icesave málinu og segir hörku hans aðeins mega skýra á þann veg að hann sé að ganga í augu kjósenda sinna.

Hún segir Hollendinga og Breta hafa ákveðið einhliða að Ísland tæki á sig skuldbindingar langt umfram hina 20.000 evra lágmarkstryggingu innistæðna og gripið til hneykslanlegra þvingunaraðgerða vegna þessa.

Hún segir að þegar til kastanna komi verði hvorki hægt að endurgreiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum né Bretlandi og Hollandi. Einnig sendir hún Norðurlöndunum tóninn og segir þau nú afreka það helst að bregðast ekkert við þeirri kúgun sem Ísland sé beitt.

Hún segir farsælli lausn á málefnum Íslendinga hafa verið þá ef aðildarlönd Evrópusambandsins hefðu hugað að leiðum sem gerðu þeim kleift að axla ábyrgð í málinu og koma betra skipulagi á fjármálamarkaði.

Þá hefði AGS getað nýtt tækifærið og tekið lánveitingarskilyrði sín til endurskoðunar og stigið þar með fyrsta skrefið í átt að nauðsynlegum og löngu tímabærum umbótum á fjölþjóðlegum stofnunum sem hafa lykilhlutverki að gegna í alþjóðasamstarfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×