Viðskipti innlent

Arion banki: Greiðsluaðlögun kostar starfsmenn hugsanlega starfið

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Starfsfólk Arion, áður Kaupþings, sem þarf að nýta sér greiðsluaðlögun vegna fjárhagserfiðleika verður flutt til í starfi eða fær uppsagnarbréf. Kaldar kveðjur til starfsmanna að úrræði stjórnvalda valdi atvinnumissi segir lögmaður.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arions, sendi bréf til starfsmanna bankans í dag þar sem þeir eru hvattir til að nýta sér, eftir því sem þörf krefur, skuldaúrræði sem bankinn bjóði upp. Þá er vísað til reglna bankans um fjárhagsstöðu starfsfólks frá árinu 2004 en stjórn bankans hefur ákveðið að til ársloka 2010 gildi eftirfarandi útfærsla á þeim.

Tilflutningi í starfi eða uppsögn er ekki beitt í þeim tilvikum þegar starfsfólk nýtir sér greiðslujöfnun, skuldaaðlögun eða þaðan af vægari skuldaúrræði. Þurfi starfsmaður hinsvegar að nýta sér róttækari leiðir líkt og greiðsluaðlögun verður viðkomandi fluttir til í starfi eða sagt upp. Þá er áréttað að mjög strangar reglur gilda um helstu stjórnendur bankans en nýti þeir sér skulda- eða greiðsluaðlögun verður þeim vikið úr starfi.

Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður, segir þetta kaldar kveðjur til rúmlega 900 starfsmanna bankans. Í tíunda kafla gjaldþrotalaganna sé boðið upp á greiðsluaðlögun sem úrræði þegar fólk er orðið illa sett fjárhagslega. Bankinn sé í raun að verja sig gagnvart því að hjá honum starfi gjaldþrota einstaklingar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×