Viðskipti innlent

Kaupþing endurheimtir rúmlega 8 milljarða frá ADP

Skilanefnd Kaupþings hefur endurheimt samtals 40 milljónir punda eða rúmlega 8 milljarða kr. af lánum sínum til Associated Dental Practises (ADP). Þetta kemur fram í uppfærðri skýrslu Kaupþings til kröfuhafa bankans.

Upphaflega ábyrgðist Kaupþing lán til ADP upp á samtals 68 milljónir punda. Hluti af þessum lánum voru síðan seld þremur öðrum bönkum. Í febrúar s.l. voru þessi lán endurskipulögð eftir að skilmálar þeirra brustu. Við það jukust töluvert vextirnir á þeim og þjónustugjöld.

Í skýrslunni segir að þessi lán hafi nú verið að fullu greidd upp. Við það hafi Kaupþing fengið 38 milljónir punda af lánunum endurgreidd og 2 milljónir punda hafi komið aukalega til bankans sem tekjur vegna vaxtanna og þjónustugjaldanna.

Fram kemur í skýrslunni að fram að þessu hafi 26 lán verði gerð upp og hafi þau skapað 59 milljarða kr. í lausafé hjá Kaupþingi, þar af hafa 21 lán verið gerð upp að fullu að upphæð 44 milljarðar kr. Fimm lán voru gerð upp að hluta að upphæð 15 milljarðar kr.

Þá er greint frá sölunni á 5,5% hlut í norska tryggingarisanum Storebrand og hefur Kaupþing þá selt alla hluti sína í Storebrand.

Ennfremur er greint frá sölunni á fjárfestingabankanum Kaupthing Bank Dubai og Qatar. Þessi banki var seldur stjórn og starfsmönnum hans enda slíkt talið hagkvæmara en að leggja bankann niður.

Þá er getið um sölu á 20% hlut í Drake Management sem átti sér stað skömmu eftir hrun Kaupþings. Þessi hlutur var auðseljanlegur og fékkst gott verð fyrir hann. Fé sem bankinn þurfti til að styðja við aðrar eignir sínar, að því er segir í skýrslunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×