Viðskipti innlent

Mismunandi kjör banka vegna húsnæðislána

Lóa Pind Aldísardóttir. skrifar

Viðskiptavinir Kaupþings og Landsbankans geta ekki treyst því að fá sömu kjör og fólk í viðskiptum við Íslandsbanka - sem geta eftir rúman mánuð fengið milljónir - og jafnvel tugmilljónir af húsnæðislánum sínum afskrifaðar.

Það dró til tíðinda í lánamálum landsmanna í dag þegar fregnaðist að Íslandsbanki ætlaði fyrstur íslenskra lánastofnana að bjóða öllum viðskiptavinum með húsnæðislán leiðréttingu á höfuðstólum lánanna.

Stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna gagnrýndi bankann í dag og líkti leiðinni því það að maður sem steli tveimur sjónvörpum - ætli að skila öðru þeirra.

Leiðin sem bankinn ætlar að bjóða frá fyrsta nóvember er svona:

Maður með myntkörfulán á íbúð sinni getur breytt því í óverðtryggt krónulán. Breytilegir vextir verða 7,5% til að byrja með. Standi lánið nú í 40 milljónum króna - lækkar höfuðstóllinn í 30 milljónir, því 25% eru afskrifuð.

Kona með krónulán á húsi sínu getur líka breytt því í óverðtryggt húsnæðislán. Óvíst er hverjir vextirnir verða. 20 milljóna króna lán - myndi lækka í 18 milljónir við skuldbreytingu, því 10% verða afskrifuð.

Fréttastofa leitaði til Kaupþings og Landsbankans í dag. Kaupþing bíður átekta eftir aðgerðum stjórnvalda og vill ekkert gefa upp um sín áform. Landsbankinn ætlar ekki að bjóða almennar leiðréttingar - þau verða þó í boði fyrir heimili í greiðsluerfiðleikum.

En hvað þýðir leið Íslandsbanka í krónum og aurum fyrir Jón og Gunnu? Íslandsbanki reiknaði út dæmi af gengistryggðu láni sem nú stendur í 20 milljónum króna.

Ef þau skötuhjú borga af óbreyttu láni væru þetta mánaðarlegar afborganir og eftir 3 ár stæði lánið í rúmlega 17 milljónum.

Færu Jón og Gunnar í greiðslujöfnun stjórnvalda yrðu mánaðarlegar afborganir öllu lægri - en lánið stæði í 19,4 milljónum eftir 3 ár.

Tækju þau boði Íslandsbanka yrði afborgunin eilítið lægri en af óbreyttu láni - hins vegar yrðu eftirstöðvarnar þremur milljónum krónum lægri eftir þrjú ár. Leið Íslandsbanka er líka í boði með greiðslujöfnun - og þá næðu þau að lækka greiðslubyrðina - en eftirstöðvarnar yrðu fimmtán milljónir eftir 3 ár.

Bankastjóri Íslandsbanka telur líklegt að leið stjórnvalda geti hentað fólki sem hyggst sitja sem fastast í húsi sínu í fyrirsjáanlegri framtíð - leið Íslandsbanka henti fólki sem hyggst stækka við sig, selja eða flytja á næstu árum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×