Viðskipti innlent

Hrein erlend staða þjóðarbúsins ekki verið betri í 8 ár

Séu gömlu bankarnir undanskildir var hrein erlenda staðan þjóðarbúsins aðeins neikvæð um 524 milljarða kr. í septemberlok. Á þann mælikvarða hefur hrein erlend staða ekki verið jafn góð síðan á 1. fjórðungi ársins 2001.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um upplýsingar sem Seðlabankinn lagði fram síðdegis í gær um erlenda stöðu þjóðarbúsins. Í Morgunkorninu segir að hafa þurfi í huga að gengi krónu er mun lægra nú en það fór lægst í upphafi aldarinnar, sem hefur áhrif í þá átt að gera stöðuna neikvæðari en ella.

Sérstaklega vekur athygli að hrein erlend staða þess bankakerfis sem reis úr rústum hrunsins í fyrra er jákvæð um ríflega 8 milljarða kr. og er það mikill viðsnúningur frá fyrri tíð.

Athyglisvert er einnig að Seðlabankinn tekur fram í fréttatilkynningu að endurmat á eign erlendra aðila á skuldabréfum útgefnum á Íslandi hafi leitt í ljós að eignin er töluvert lægri en áður var talið. Bendir það til þess að þrýstingur á krónuna að völdum vaxtagreiðslna til erlendra aðila sé að sama skapi minni.

Þótt lesa megi tiltölulega jákvæða niðurstöðu úr ofangreindum tölum ber að hafa í huga að ýmislegt gæti orðið til þess að hrein erlend staða versni nokkuð að nýju. Þar má nefna að erlendar skuldir hins opinbera gætu aukist nokkuð á næstu misserum, og einnig að Icesave-skuldbindingin er hér ekki meðtalin.

Varla þarf svo að taka fram að komi til þess að neyðarlögunum sem sett voru í fyrrahaust verði hnekkt mun það hafa umtalsverð áhrif til verri vegar á erlenda skuldastöðu hins opinbera og þar með hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins. Hins vegar er gengi krónunnar afar lágt um þessar mundir og má ætla að þegar litið er til lengri tíma komi það til með að hækka. Mun það bæta hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins mælt í krónum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×