Viðskipti innlent

Skuldatryggingarálag ríkissjóðs lækkar að nýju

Eftir töluverða hækkun skuldatryggingarálags íslenska ríkisins í síðustu viku þegar álagið til fimm ára fór upp í 461 punkta (mæling CMA 10. desember s.l.) hefur það lækkað lítillega og stendur nú í 436 punktum.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að nokkur titrings gætti á mörkuðum í kjölfar fréttanna af ástandinu í Dubai í lok nóvember enda eiga margir bankar mikla hagsmuni að gæta.

Hækkunin í síðustu viku var því ekkert einsdæmi en t.a.m. hækkaði áhættuálag Lettlands úr 528 punktum í 552 punkta, Írlands úr 153 punktum í 169 punkta og Grikklands úr 191 punktum í 232 punktum. Þess má geta að matsfyrirtækið Fitch lækkaði lánshæfiseinkunn Grikklands fyrir langtímaskuldbindingar úr A- í BBB+ í síðustu viku og eru einkunnir þess áfram á neikvæðum horfum. Er Grikkland nú með næstlægsta lánshæfismat hjá Fitch, þ.e. á eftir Íslandi, af þróuðum ríkjum.

Í gær tilkynntu stjórnvöld í Dubai um að þau hefðu fengið 10 milljarða dollara að láni frá nágrannaríki sínu Abu Dhabi. Á lánið að vera notað til þess að standa straum af skammtíma skuldbindingum furstadæmisins og voru ríflega 4 milljarðar af því settir inn í eignarhaldsfélagið Dubai World, sem er í ábyrgð furstadæmisins.

Virðist því sú óvissa sem ríkt hefur vegna skuldastöðu og afborgana Dubai vera liðin hjá í bili a.m.k. með þessari lánveitingu en flestir höfðu reiknað með að ekki tækist að greiða upp skuldabréf Nakheel, þ.e. dótturfélags Dubai World, þegar þau kæmu á gjalddaga.

Þessi tíðindi hafa haft jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaði víða og auk þess virðist áhættufælni markaðsaðila hafa minnkað nokkuð sem m.a. má sjá í lækkun skuldatryggingarálags Dubai, úr 540 punktum í 431 punkta. Skuldatryggingaálag annarra ríkja hefur jafnframt lækkað nokkuð þ.m.t. þeirra sem nefnd voru hér að ofan, að Grikklandi undanskildu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×