Viðskipti innlent

Eigandaskipti Iceland Express hugsanlega ólögleg

Heimir Már Pétursson skrifar

Skiptastjóri þrotabús Fons skoðar nú hvort eigendaskipti á Iceland Express undir lok síðasta árs hafi verið ólögleg. Níutíu prósent hlutur í flugfélaginu fluttist á milli tveggja félaga sem bæði voru í eigu Pálma Haraldssonar.

Fengur eignaðst hlutinn í Iceland Express í gegnum hlutafjáraukningu undir lok síðasta árs. Hlutur Fons, sem var áður hundrað prósent, varð tæplega átta prósent. Fons er nú gjaldþrota.

Óskar Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Fons, sagði í samtali við Fréttastofu að verið væri að kalla eftir gögnum um þetta mál til að sjá hvort hlutafjáraukningin hafi endurspeglað raunverulegt virði Iceland Express á þessum tíma. Með hlutafjáraukningunni bjargaði Pálmi Haraldsson Iceland Express út úr Fons og hélt stjórninni á félaginu.

Óskar sagði jafnframt að Landsbankinn, sem ætti veð í hlut Fons í Iceland Express, hefði skoðað hlutafjáraukninguna á sínum tíma og ekki séð neitt athugavert þegar málið var skoðað ofan í kjölinn.

Meðal eigna Fons er 23 prósent hlutur í 365 miðlum sem reka meðal annars Stöð 2 og Vísi.

 

Fréttatilkynning frá Iceland Express:

 

Vegna frétta um eigendaskipti Iceland Express í kvöld vill félagið taka fram, að í haust eftir bankahrunið var ljóst, að nýtt fjármagn vantaði inní rekstur félagsins. Ekki var í mörg hús að venda því rekstrarfé lá ekki á lausu. Var því gripið til þess ráðs að auka hlutafé með framlagi frá eignarhaldsfélaginu Feng.

 

Landsbankinn hafði hagsmuna að gæta og skoðaði viðskiptin ofan í kjölinn. Bankinn sá ekkert athugavert við viðskiptin, eins og raunar kom fram í fréttinni á Stöð 2 í kvöld.

 

Iceland Express harmar að reynt sé að ala á tortryggni í viðskiptalífinu með fréttaflutningi af þessu tagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×