Viðskipti innlent

Bakkabræður slógu lán fyrir kaupum á Símanum - lánið er ógreitt

Andri Ólafsson skrifar
Bræðurnir Ágúst og Lýður.
Bræðurnir Ágúst og Lýður.
Allt lítur út fyrir að Síminn komist aftur í eigu ríkisins innan skamms en Skipti, móðurfélag Símans, skuldar nýja Kaupþingi rúma 54 milljarða króna. Skipti er í eigu Exista, sem aftur er í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssonar.

DV segir frá þessu í dag og vitnar til gagna úr lánabók Kaupþings sem lak á wikilieaks síðuna fyrir skömmu. Þar kemur fram að Skipti skuldaði Kaupþingi tæpa 297 milljónir Evra eða rúma 54 milljarða króna fyrir hrun. Skuldin er tilkomin vegna kaupanna á Landssíma Íslands árið 2005 en skuldin hefur nú verið færð yfir í Nýja Kaupþing.

Skipti er alfarið í eigur Existu sem er afar skuldugt félag og stefnir allt í að kröfuhafar, skilanefndir Glitnis og Kaupþings ásamt Nýja Kaupþingi, taki það yfir innan skamms. Þannig gæti Síminn aftur komist í almenningseign þótt ekki séu nema fjögur ár síðan hann var einkavæddur.

Athygli vekur að það hafi verið Kaupþing sem lánaði Skiptum fyrir kaupunum á Símanum á sínum tíma því Exista, sem var stærsti hluthafinn í Skiptum var einnig einn af stærstu hluthöfunum í Kaupþingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×