Viðskipti innlent

Tillögur Jóns svo arfavitlausar að engu tali tekur

Kristján Már Unnarsson skrifar

Jóns Bjarnason sjávarútvegsráðherra áformar að stöðva siglingar fiskiskipa með ferskan fisk á erlendan markað og takmarka mjög möguleika á útflutningi á ferskum fiski í gámum. Sjómenn og útvegsmenn í Vestmannaeyjum mótmæla harðlega fyrirhugðum reglugerðarbreytingum þessa efnis og segja þær arfavitlausar.

Áformaðar breytingar eru kynntar á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins til að hagsmunaaðilum gefist kostur á að koma athugasemdum á framfæri áður en þær taka gildi þann 1. febrúar næstkomandi. Breytingarnar virðast vera í samræmi við ákvæði stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis.

Ráðherrann hyggst breyta reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla, með tvenns konar hætti. Annars vegar er heimild til vigtunar á afla íslenskra skipa á markaði erlendis felld niður en þetta mun í raun þýða að siglingar fiskiskipa með afla til löndunar í erlendum höfnum munu leggjast af.

Hins vegar er reglum breytt um vigtun afla með þeim hætti að hagsmunasamtök sjómanna, skipstjóra og útvegsbænda í Vestmannaeyjum telja að verið sé að skerða stórlega og jafnvel leggja af útflutning á ferskum fiski í gámum.

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra kveðst ekki ætla að tjá sig um málið á þessu stigi og vill fyrst sjá hver viðbrögð hagsmunaaðila verða við reglugerðardrögunum. Ljóst er þó að í stærstu verstöð landsins, Vestmannaeyjum, bregðast hagsmunaaðilar hart við.

Í sameiginlegri yfirlýsingu segjast þeir frábiðja sér fyrirhugaðar breytingar, og segja þær svo arfavitlausar að engu tali tekur. Þær komi aðeins til með að skerða tekjur og atvinnufrelsi sjómanna og útgerða.

Þeir minna á ákvæði í kjarasamningi sjómanna og Samtaka atvinnulífsins um að ávallt skuli leitast við að fá hæsta verð fyrir aflann. Markaðir erlendis beinlínis hrópi á ferskan fisk, segja Eyjamenn, og neytendur séu tilbúnir að borga vel fyrir þá góðu vöru sem ferskur fiskur frá Íslandi sé.

Margar útgerðir og sjómenn þeirra hafi um langt árabil varið miklum tíma og fjármunum í að þróa og byggja upp þessa markaði. Ef ráðamenn þjóðarinnar ætli að loka alfarið á útflutning á ferskum fiski sé hreinlegra að segja það beint út en ekki með reglugerðaræfingum og lagaflækjum, segir í ályktuninni.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×