Skoðun

Kjánalegar fullyrðingar

Síminn hefur á undanförnum árum misst marga af sínum stærstu viðskiptavinum yfir til Vodafone. Þau eru teljandi á fingrum annarrar handar útboðin sem Síminn hefur unnið, oftast vegna þess að fyrirtækið hefur ekki boðið sambærilegt verð og aðrir en í sumum tilvikum hefur Síminn einfaldlega ekki staðist tæknilegar kröfur í útboðunum.

Í því ljósi er sá pirringur forstjóra Símans, sem birtist m.a. á forsíðu Fréttablaðsins í gær og beindist að Vodafone, skiljanlegur. Hinn eflaust ágæti forstjóri hlýtur hins vegar að tala gegn betri vitund þegar hann heldur því fram, að skattgreiðendur þurfi að greiða tugi milljarða svo Vodafone og önnur dótturfélög Teymis (sem er móðurfélag Vodafone) geti starfað áfram á markaði. Slík ummæli eru beinlínis kjánaleg, því ekkert slíkt stendur til. Þvert á móti er fjárhagslegri endurskipulagningu Teymis ætlað að tryggja hagsmuni íslensku bankanna og koma í veg fyrir að byrðar lendi á skattgreiðendum. Engar skuldir verða felldar niður, heldur verður hluta þeirra breytt í hlutafé. Fyrri eigendur missa allt sitt, en nýir eigendur standa eftir með verðmæt fyrirtæki sem skapa þeim miklar tekjur.

Rekstur Vodafone gengur vel og sanngjarn hagnaður af starfseminni mun renna til nýju eigendanna. Bankarnir hafa hins vegar lýst því yfir, að þeir hyggist ekki eiga fyrirtækið til lengri framtíðar og selja það hæstbjóðanda í opnu og gagnsæju ferli síðar meir líkt og önnur dótturfyrirtæki Teymis.

Starfsmenn Vodafone láta það ekki trufla sín daglegu störf, þótt stærsti keppinauturinn okkar sé með Vodafone á heilanum. Þvert á móti eykur það samheldnina í okkar hópi og viljann til að veita bestu fjarskiptaþjónustuna á markaðnum.

Höfundur er upplýsingafulltrúi Vodafone.




Skoðun

Sjá meira


×