Viðskipti innlent

FME sektar SP-Fjármögnun og Sparisjóð Mýrarsýslu

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur sektað SP-Fjármögnun og Sparisjóð Mýrarsýslu fyrir brot á lögum um verðbréfaviðskipti. SP-Fjármögnun var sektuð um 400.000 kr. og Sparisjóður Mýrarsýslu um 700.000 kr.

Fjallað er um málin á vefsíðu FME. Þar kemur fram að SP-Fjármögnun er sektuð fyrir að hafa sem útgefandi skráðra fjármálagerninga ekki birt árshlutareikning á réttan hátt á tilskildum tíma.

Í lögunum er kveðið á um skyldu útgefenda um að birta almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu reglulegar upplýsingar útgefanda, eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli. Ábyrgð á að upplýsingar séu gerðar opinberar hvílir á útgefanda.

Sparisjóður Mýrasýslu sem útgefandi skráðra fjármálagerninga braut gegn lögunum með því að birta ekki innherjaupplýsingar á réttan hátt á tilskildum tíma. Í lögunum er kveðið á um skyldu útgefenda um að birta almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu allar þær innherjaupplýsingar sem varða hann eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli.

Báðum málunum lauk með sátt og sektargreiðslum eins og að framan greinir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×