Viðskipti innlent

Áætla að meira en helmingur af virði eigna endurheimtist

Slitanefnd Frjáls fjárfestingarbankans áætlar að 50 til 65% endurheimtist af virði eigna bankans sem var tekinn til slita samkvæmt ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur í júní þegar eigið fé hans var uppurið. Helstu þættir sem hafa áhrif á endurheimturnar eru þróun á fasteignamarkaði, gengi gjaldmiðla, hagvöxtur og atvinnu- og launaþróun, að fram kemur í tilkynningu.

Slitastjórn telur farsælast að reka bankann áfram til að hámarka virði eigna hans, meðal annars með útleigu á eignum.

Slitastjórn gerði nýverið grein fyrir stöðu bankans á kröfuhafafundi og fór yfir kröfuskrána auk þess sem kröfuhöfum var gefinn kostur á að gera athugasemdir. Engar bindandi ákvarðanir voru teknar á fundinum.

„Lýstar kröfur í búið námu tæpum 100 milljörðum króna, 37 kröfur voru samþykktar í heild eða breyttar að fjárhæð rúmir 93 milljarðar króna samkvæmt kröfuskránni, 110 kröfum var hafnað og 26 hafnað að svo stöddu. Samþykktar veðkröfur nema samtals 1.930.233 kr. Aðrar kröfur hafa stöðu almennra krafna. Frestur til að skila inn kröfulýsingum rann út 22. október 2009. Engar forgangskröfur voru samþykktar,“ segir í tilkynningu slitastjórnarinnar.

Eignir Frjálsa fjárfestingarbankans samanstanda öðru fremur af lánasöfnum til einstaklinga og fyrirtækja sem tryggð eru með veðum í fasteignum. Aðrar eignir eru fasteignir sem leigðar eru út og auk þess nokkrar lóðir og fasteignir á byggingarstigi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×