Innlent

Íslenskar jólagjafir fastar í Kaupmannahöfn

Póstur. Mynd úr safni.
Póstur. Mynd úr safni.

„Við eigum eftir að sjá hvað gerist," segir Anna Katrín Halldórsdóttir, markaðstjóri Íslandspósts, en um fimmtán hundruð póstpokar eru fastir í Kaupmannahöfn og lítur út fyrir að þeir berist ekki hingað til lands fyrr en eftir jól. Um er að ræða bréf og pakka.

Að sögn Önnu þá er ástæðan fyrir seinkunni sú að flugfélagið SAS hefur ekki undan við að flytja póstinn áleiðis.

„Þetta er í fyrsta skiptið sem þeir sjá um þetta," segir Anna en Íslendingar eru ekki þeir einu sem fá ekki jólagjafirnar á réttum tíma, því SAS átti að flytja póst frá Bandaríkjunum til allra landa innan Evrópu.

Það var bandaríska póstþjónustan sem gerði samning við SAS en áður var pósturinn fluttur beint hingað til lands frá Bandaríkjunum með Icelandair.

„Það er mikið verið að hringja og spyrja út í pakkana. Þetta virðist bara vera fast í Kaupmannahöfn, því miður," segir Anna Katrín sem býst við að pakkarnir muni ekki rata hingað til lands fyrr en á milli jóla og nýárs. Þá muni Íslandspóstur að sjálfsögðu dreifa bögglum og bréfum sem allra fyrst.

„Við erum búin að kvarta undan þessu," segir Anna Katrín en hún segir málið verða skoðað á morgun. Komi í ljós að engin leið sé að fá pakkana fyrir jól, þá verði send út tilkynning á fjölmiðla. Hún býst þó ekki við því að staðan breytist mikið.

Því er ljóst að margir þurfa að opna jólapakkana frá Bandaríkjunum eftir jól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×